Bandaríska flugfélagið Delta Air Lines mun í byrjun maí taka upp þráðinn á ný í flugi til Íslands og fljúga í sumar frá New York og Minneapolis – daglega frá hvorri borg. Delta hefur flogið til Íslands með hléum í rúman áratug
„Við skynjum mikinn áhuga á Íslandi hjá fólki í öllum aldurshópum þannig að við höfum trú á því að flugið í sumar muni ganga vel,“ segir Jan Feenstra, markaðsstjóri Delta Air Lines á Norðurlöndunum og Hollandi í samtali við Morgunblaðið. Hann var nýlega staddur hér á landi til að hitta ferðaskrifstofur og aðra hagsmunaaðila í íslenskri ferðaþjónustu.
Jan segir að flugið til Íslands hafi áður gengið vel og félagið sé bjartsýnt á að það muni áfram njóta vinsælda hjá farþegum Delta Air Lines.
„Við áttum okkur á því að Ísland hefur upp á margt að bjóða. Náttúran og auðnin hér á landi er fyrir marga meira spennandi en stórborgir,“ segir Jan. „Í eðlilegu árferði hafa framboð og eftirspurn eftir fluginu til Íslands haldist í hendur. Við sjáum líka að ungt fólk hefur mikinn áhuga á Íslandi enda vill ungt fólk í auknari mæli njóta hreinnar náttúru.“
Þá segir Jan einnig að Ísland sé ekki stórt en flugið til Íslands hefur þó gengið það vel að félagið sé nú að fljúga á stærri vél en áður á milli New York og Íslands. Notast verður við Boeing 767 vélar til New York og Boeing 757 vélar til Minneapolis.
Nánar er rætt við Jan Feenstra í Morgunblaðinu í dag.