Nanna Kristín Tryggvadóttir hefur verið ráðin sem framkvæmdastjóri Húsheildar ehf. og Byggingarfélagsins Hyrnu. Nanna Kristín hefur þegar hafið störf en hún tekur við starfinu af Ólafi Ragnarssyni sem mun áfram starfa hjá fyrirtækinu við ýmis verkefni þess.
Húsheild festi nýlega kaup á Byggingarfélaginu Hyrnu. Meðal verkefna fyrirtækjanna eru stækkun flugstöðvarinnar á Akureyri og byggingin fjölbýlishúsa þar í bæ, gerð Þjóðgarðsmiðstöðvar á Hellissandi og gestastofu á Kirkjubæjarklaustri, gerð tveggja brúa á Snæfellsnesi auk fjölda annarra verkefna víða um land.
Nanna Kristín hefur starfað hjá Landsbankanum frá 2009, fyrst á fyrirtækjasviði, síðar í áhættustýringu og verkefnastjórnun og sem aðstoðarmaður bankastjóra undanfarin 5 ár. Hún útskrifaðist með BSc. í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík 2010 og lauk meistaragráðu í rekstrarverkfræði frá Duke háskóla í Norður-Karólínu 2011. Hún er jafnframt með meistaragráðu í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík.