„Líklegt er að verðlækkanir séu í kortunum [hér á landi] miðað við stöðuna sem er núna,“ segir Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda í samtali við mbl.is um lækkanir á heimsmarkaðsverði olíu síðustu daga.
Töluverðar sveiflur hafa verið á heimsmarkaðsverði upp á síðkastið en hækkanir ollu því að lítrinn af bensíni og díselolíu náðu yfir 300 krónum hér á landi þann níunda mars.
Síðan þá hefur heimsmarkaðsverð lækkað en eldsneytisverð á Íslandi hefur ekki fylgt eftir nema að litlu leyti, en besínlítrinn stendur rétt undir 300 krónunum.
„Hrár bensínlítri á heimsmarkaði kostar um 110 krónur á Norður-Evrópu markaði. Í desember var meðalverðið í kringum 85 krónur,“ segir Runólfur og bætir við að hæst hafi lítrinn farið í 123 krónur og er hann því sögulega mjög hár, þrátt fyrir lækkanir.
Runólfur segir FÍB búið að senda stjórnvöldum erindi þar sem hvatt er til þess að lækka skatta á olíu.
í Danmörku er til umræðu að auka við úrræði þar sem skattgreiðendur sem þurfa að keyra meira en 22 kílómetra í og úr vinnu geti notað eldsneytistkaup sín til skattafrádráttar.
Þá var í Svíþjóð nýlega tilkynnt að þar yrðu tímabundið lækkaðir skattar á eldsneyti til að sporna við hækkunum heimsmarkaðsverðs olíu.