Baldvin Þorsteinsson, sem í gær lét af störfum sem stjórnarformaður Eimskips, seldi í dag hlutabréf í félaginu að andvirði fimm milljóna króna samkvæmt tilkynningu til Kauphallar.
Baldvin tilkynnti í ræðu sinni á aðalfundi félagsins í gær að hann myndi selja hlutabréf í félaginu og láta þá fjárhæð renna til söfnunar til aðstoðar börnun í Úkraínu.
Hann tók fram að hlutabréf í Eimskip hefðu hækkað nokkuð á liðnum misserum sem þakka mætti starfsfólki félagsins. Því væri rétt að líta svo á að verðmæti bréfanna væri til komið vegna vinnu starfsfólksins og framlagið til bágstaddra í Úkraínu væri því gefið í þeirra nafni.
Framlagið mun renna í söfnun sem Igor Kopyshynskyi, Úkraínumaður sem spilar handbolta með Haukum, hratt af stað eftir að Rússar réðust inn í landið í lok febrúar. Baldvin er ekki ókunnugur handboltaheiminum enda spilaði hann handbolta um árabil með KA, Val og FH.