Anna Hrefna Ingimundardóttir, sem gegnt hefur starfi forstöðumanns efnahagssviðs SA, hefur verið ráðin aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Hún tekur við af Ásdísi Kristjánsdóttur, sem hefur haslað sér völl í stjórnmálum.
Þá hefur Páll Ásgeir Guðmundsson verið ráðinn forstöðumaður sameinaðs efnahags- og samkeppnishæfnissviðs, sem hefur með greiningu efnahagsmála, umsagnagerð og stefnumörkun fyrir atvinnulífið að gera.
Fram kemur í tilkynningu á vef Samtaka atvinnulífsins að Anna Hrefna hafi tekið við starfi forstöðumanns efnahagssviðs SA árið 2020, en áður vann hún við sérhæfðar fjárfestingar hjá Eldhrímni ehf. Þar áður starfaði hún sem efnahagsgreinandi hjá greiningardeild Arion banka og sem lánastjóri á fyrirtækjasviði bankans. Hún starfaði um margra ára skeið við greiningar á fjármálamörkuðum í Bandaríkjunum. Hún er með BA- og MA-gráður í hagfræði frá New York University. Hún hefur auk þess réttindi sem löggiltur verðbréfamiðlari.
Páll Ásgeir hefur undanfarin fimm ár starfað sem aðstoðarmaður ráðherra, fyrst í forsætisráðuneytinu en frá haustinu 2017 í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Páll hefur m.a. starfað við markaðsmál og stjórn fyrirtækja. Hann var framkvæmdastjóri Telmar á Íslandi og gegndi starfi sviðsstjóra markaðs- og viðhorfsrannsókna hjá Gallup þar sem hann starfaði með mörgum af stærstu fyrirtækjum landsins, auk þess að leiða viðhorfsrannsóknir og vöruþróun fyrirtækisins.