Sér ekki ástæðu til að kæra í málum ÁTVR

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kveðst ekki sjá ástæðu til þess að kæra úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í tveimur málum ÁTVR, gegn Bjórlandi annars vegar og Santewines hins vegar, til Landsréttar.

„Mér finnst þetta ágætlega rökstuddur dómur,“ sagði Bjarni í samtali við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi í Ráðherrabústaðnum í dag.

Áfengissala félaganna hafi valdið ÁTVR tjóni

ÁTVR hafði höfðað einkamál gegn Bjórlandi og Santewines þar sem stofnunin taldi félögin hafa valdið sér tjóni með sölu félaganna á áfengi í gegnum netverslanir sínar. Fór ÁTVR meðal annars fram á að viðurkennd yrði bótaskylda vegna meints tjóns sem ÁTVR hefði orðið fyrir af sölu áfengis sem ekki var selt á grundvelli einkaleyfis ÁTVR til smásölu áfengis hér á landi.

Fóru bæði Bjórland og Santewines fram á að málunum yrði vísað frá dómi og töldu ÁTVR ekki eiga lögvarða hagsmuni af málshöfðuninni. Þá sé fjármálaráðherra æðsti yfirmaður stofnunarinnar og að hann hafi almennar stjórnunar- og eftirlitsheimildir og að það sé undir hans stjórn.

Töldu félögin að í lögum um ÁTVR komi heldur ekki fram að stofnunin skuli hafa eftirlit með sölu annarra aðila.

Ívar J. Arndal, forstjóri ÁTVR.
Ívar J. Arndal, forstjóri ÁTVR. Ljósmynd/ÁTVR

Sem fyrr sagði fóru málin tvö svo að þeim var vísað frá Héraðsdómi Reykjavíkur á föstudag. 

Degi síðar skrifaði Ívar J. Arndal, forstjóri ÁTVR, umsögn um frumvarp um breytingar á áfengislögum sem heimila munu vefverslun með áfengi. Í umsögninni segir hann umrætt frumvarp fela í sér algjöra stefnubreytingu í áfengismálum á Íslandi og forsendubrest fyrir einkaleyfi ÁTVR.

„Með fyr­ir­liggj­andi frum­varpi er smá­sala áfeng­is inn­an­lands í raun gef­in frjáls. Ekki er hægt að gera upp á milli eða skilja í sund­ur „hefðbundna“ smá­sölu ann­ars veg­ar og vef­versl­un hins veg­ar. Vef­versl­un er hluti af al­menn­um versl­un­ar­rekstri í dag,“ seg­ir í um­sögn­inni.

„Óheppilegt“ að þátttakendur telji lögin óskýr

Spurður hvað honum fyndist um þetta útspil ÁTVR sagði Bjarni það virðast vera niðurstaða dómstólsins að eitthvað athugavert hafi verið við aðild ÁTVR í þessum tveimur málum.

„Þannig það er út af fyrir sig verið að vísa í niðurstöðu dómstólsins fyrst og fremst, forsendur fyrir frávísun. Við höfum rætt við dómsmálaráðuneytið og bent á að það sé óheppilegt að þátttakendur á þessum markaði telji lögin vera að einhverju óskýr.“

Þá telur Bjarni vefverslun vera að breyta leikreglunum og að núverandi áfengislög hafi kannski ekki að öllu leyti verið smíðuð með hliðsjón af þeim veruleika.

„Í mínum huga er þetta þó nokkuð skýrt, þ.e. að það væri mjög einkennilegt að líta þannig á að vefverslun innan EES væri heimil en vefverslun innlendra aðila væri sérstakt vandamál,“ segir hann.

Ef við myndum líta þannig á að vefverslun innan EES væri heimil, þá fyndist mér ósanngirni fólgin í því að leitast eftir því að loka fyrir hana hér heima fyrir,“ bætir hann við.

Í verslun ÁTVR.
Í verslun ÁTVR. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Telur tímabært að löggjafinn taki afstöðu

Þetta sé þó kannski dæmi um að það sé orðið tímabært að löggjafinn taki afstöðu til þessa álitamáls, að sögn Bjarna. Tveir ólíkir hlutir hafi verið í umræðunni, annars vegar hin alþjóðlega vefverslun EES-svæðisins og hins vegar það hvort innlend vefverslun jafngildi því að stunda smásölu og afhenda áfengi hérlendis.

„Fyrir mína parta þá horfa lýðheilsurökin dálítið öðruvísi við þegar um vefverslun er að ræða heldur en þegar við stillum t.d. áfengi upp við hliðina á mjólkurkælinum úti í búð. Að því leytinu til hef ég ekki haft sömu áhyggjur af vefverslun eins og ég finn að margir hafa vegna aukins frelsis í smásölu.

Ég myndi frekar leggja áherslu á að ræða með dómsmálaráðuneytinu þörfina fyrir að skoða löggjöfina og skýra leikreglurnar heldur en að grípa frekar inn í þessa atburðarás.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK