Áætlaðar tekjur ríkisins af sölu á 22,5% hlut í Íslandsbanka í dag er um 52,7 milljarðar króna. Af þeirri upphæð á þó eftir að reikna þóknun til umjónaraðila útboðsins sem fram fór fyrr í dag.
Eins og áður var greint frá setti Bankasýsla ríkisins nokkuð óvænt af stað söluferli á að minnsta kosti 20% hlut ríkisins í Íslandsbanka með tilboðsfyrirkomulagi til innlendra og erlendra hæfra fjárfesta, þ.e. fagfjárfesta og viðurkenndra gagnaðila, eftir lokun markaða í dag.
Um kvöldmatarleytið sendi Íslandsbanki frá sér tilkynningu þar sem fram kom að umsjónaraðilar útboðsins hefðu móttekið áskriftir fyrir 400 milljónum, sem er skilgreind lágmarksstærð söluferlisins og er um 20% hlutur í bankanum, og stuttu síðar var tilkynnt að ákveðið hafi verið að selja 22,5% af heildarhlutafé bankans.
Leiðbeinandi verð fyrir útboðið var 117 kr. á hvern hlut en gengi hlutabréfa í Íslandsbanka var 122 við lokun markaða í dag. Því má áætla að söluandvirði hlutanna í gær sé um 52,7 milljarðar króna. Greint verður frá útboðsgengi og endanlegum fjölda seldra hluta fyrir opnun markaða í fyrramálið en uppgjör viðskiptanna fer fram 28. mars nk.
Ríkissjóður fékk í júní í fyrra um 55 milljarða króna fyrir sölu á 35% hlut í bankanum en markaðsvirði hans var þá um 160 milljarðar króna. Ríkið á enn um 42,5% hlut í bankanum en er nú orðið minnihlutaeigandi.