Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins sakaði Píratann Björn Leví Gunnarsson um hundalógík þar sem sá síðarnefndi spurði ráðherrann um markmið með sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.
Björn Leví sagði að 30 milljarða munur hafi verið á söluverði og markaðsverði en Bankasýsla ríkisins seldi í útboðinu 22,5% hlut í bankanum fyrir tæpa 53 milljarða króna.
„Hvernig getur ráðherra sagt að salan hafi verið vel heppnuð þegar ríkissjóður tapaði 30 milljörðum króna?“ spurði Björn Leví.
Bjarni sagði að eitt af markmiðum ríkisstjórnarinnar við söluna á Íslandsbanka hafi verið að hámarka endurheimtur við söluna en það hafi þó ekki verið eina markmiðið með sölunni. Þá hefði allur bankinn verið boðinn einum kaupanda og seldur hæstbjóðanda.
„Þannig að þegar þessi markmið eru borin saman þá verða menn að taka afstöðu til þess hvort heildarniðurstaðan er í samræmi við það sem lagt var upp með. Fengum við fjárfesta sem vildu halda á hlutnum til lengri tíma t.d.? Er það eftirsóknarvert yfir höfuð að hafa dreift eignarhald? Er skynsamlegt að leggja áherslu á að fá bæði erlenda og innlenda aðila? Ég segi já við öllum þessum spurningum,“ sagði Bjarni og bætti við að mjög gott verð hafi fengist í útboðinu.
Björn Leví spurði hvort það væri 30 milljarða króna virði að taka tillit til annarra þátta en að hámarka endurheimt.
„Er það góð vænting? Er það eitthvað sem við búumst við að sé fyrirsjáanlegt? Var það þannig sem ríkið sagði það: Við ætlum að ná dreifðu eignarhaldi en það mun kosta 30 milljarða að ná því markmiði? Nei, það kom aldrei fram. Það vantaði rökstuðning,“ sagði Björn Leví.
„Ég verð bara að segja alveg eins og er að þetta slær mig sem hundalógík sem háttvirtur þingmaður kemur með hér, að teikna það þannig upp að menn hafi bara með opin augun selt bankann 30 milljörðum ódýrari en hann var raunverulega metinn á. Þetta stenst enga skoðun,“ sagði Bjarni.