Yrði látinn fjúka ef hann seldi bústað á undirverði

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér finnst þetta holgervingur spillingar, ef ég á að vera alveg hreinskilinn,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, um sölu á tæplega fjórðungshlut ríkisins í Íslandsbanka. Mikil eftirspurn var meðal fagfjárfesta í útboði Bankasýslunnar á hlutnum sem hófst á þriðjudagskvöld og lauk snemma í gærmorgun. 

Banka­sýsla rík­is­ins seldi í útboðinu 22,5% hlut í bank­an­um fyr­ir tæpa 53 millj­arða króna en hefði fengið um tveimur milljörðum hærra verð ef markaðsgengi þriðjudagsins hefði gilt.

Ragnar Þór gagnrýnir að hluturinn hafi ekki verið seldur á markasvirði og segir enn fremur að meirihluti þjóðarinnar vilji halda bönkunum í eigu ríkisins. „Sömuleiðis er verið að selja ríkiseigur, eða eigur almennings, með afslætti, og það getur ekki talist ásættanlegt fyrir skattgreiðendur og þjóðina að ráðamenn stundi svoleiðis viðskipti í dag,“ segir Ragnar Þór.

Finnst „að sjálfsögðu“ að ráðherra eigi að segja af sér

Ragnar Þór segir fyrst og fremst við Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra að sakast í þessu máli en hann taki ákvörðun. 

„Þú getur ekki skellt skuldinni á fasteignasalann sem fer eftir þeirri línu sem er lögð. Ég kemst ekki upp með það að selja sumarbústað í eigu VR sem kostar 40 milljónir eða meira á 35 milljónir án þess að þurfa að svara fyrir það með afsögn. Ég gæti ekki skellt skuldinni á einhvern ráðgjafa, fasteignasala eða annan. Ég kæmist ekki upp með það.“

Ragnar segir spurður að honum finnist „að sjálfsögðu“ að fjármálaráðherra eigi að segja af sér eftir þessa sölu.

Spurður hvort hann viti hvaða lífeyrissjóðir keyptu hlut í bankanum segist Ragnar reikna með því að flestir eða allir lífeyrissjóðirnir hafi tekið þátt.

„Ég veit ekki hvað þeir fengu mikið. Þetta eru upplýsingar sem ég kalla eftir að þingmenn krefji fjármálaráðherra um, það verði upplýst hverjir keyptu og hversu mikið þeir buðu og í hversu stóran hlut. Síðan hverjir fengu. Það liggur alveg fyrir að fjárfestar voru tilbúnir til að borga mun hærri hlut en það gengi sem var síðan ákveðið að selja á. Það þarf að kalla eftir algjöru gagnsæi í þessu ferli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK