Íslensku ráðgjafarnir vildu hleypa almenningi að borðinu

Eftir óvænta sölu Bankasýslunnar á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka á þriðjudagskvöld eru bæði stjórnmálamenn og aðilar á markaði enn að átta sig á því hvernig salan fór fram, hvort verðið fyrir hlut ríkisins hafi verið rétt og hverjir fengu að kaupa í þessari lotu.

Fyrirkomulagið á sölunni kom í sjálfu sér ekki á óvart í ljósi þeirra upplýsinga sem legið hafa fyrir frá því ferlið hófst. Þegar Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, tilkynnti undir lok síðustu viku að söluferlið væri hafið á ný voru um leið birt nánari gögn og álit frá ráðuneytinu, Bankasýslunni, Seðlabankanum, efnahags- og viðskiptanefnd Alþings sem og fjárlaganefnd. Þá er aðferð Bankasýslunnar frá því á þriðjudag, þ.e. lokað útboð til fagfjárfesta, þekkt aðferð erlendis og framkvæmd í samráði við erlenda ráðgjafa.

Einn viðmælandi á markaði sem Morgunblaðið ræddi við sagði að ekki mætti gleyma því að fyrirkomulagið hefði legið fyrir allan tímann enda hefði það verið hluti af tillögu Bankasýslunnar varðandi söluna. Þá hafi engin umræða verið um fyrirkomulagið í þinginu eða í aðdraganda kosninga.

Hann sagði að hugmyndir hefðu komið fram á undirbúningstímanum um að leyfa almenningi að kaupa hluti í beinu framhaldi, en ákveðið hefði verið að fara ekki þá leið. Það rímar við aðrar heimildir Morgunblaðsins um að íslenskir ráðgjafar hafi ekki athugasemdir við það að útboðið færi fram með þessum hætti en þó óskuðu nokkrir þeirra eftir því að upplýst yrði hvort, hvenær og hvernig almennum fjárfestum yrði boðið að kaupa hlut í bankanum – enda er talið að mikill áhugi sé meðal almennra fjárfesta að eignast hlut í bankanum, bæði þeirra sem tóku þátt í hlutafjárútboðinu sem fram fór síðasta sumar og þeirra sem hafa áhuga að á koma nýir inn.

Nánar er fjallað um sölu ríkisins á hlut sínum í Íslandsbanka í Morgunblaðinu í dag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK