Samkeppniseftirlitið sektar SFF um 20 milljónir

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins.
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samkeppniseftirlitið hefur sektað Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) um 20 milljóna króna eftir að SFF viðurkenndi brot á samkeppnislögum og undirritaði sátt við Samkeppniseftirlitið.

Tildrög málsins má rekja til þess að á síðasta ári birtust tvær greinar á vegum SFF þar sem fjallað var um ýmsa þætti vátryggingamarkaðarins og áhrif þeirra á iðgjöld, auk þess sem reifaðar voru hugmyndir að lagabreytingum sem skapað gætu forsendur til lækkunar iðgjalda. Umfjöllun SFF leiddi til þess að Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) sendi Samkeppniseftirlitinu kvörtun og óskaði eftir því að eftirlitið tæki til rannsóknar hvort hagsmunagæsla SFF fyrir hönd aðildarfélaga sinna bryti gegn ákvæðum samkeppnislaga.

Samkeppniseftirlitið varð við þeirri beiðni og hóf rannsókn, en í kjölfarið óskaði SFF eftir viðræðum í þeim tilgangi að ljúka málinu í sátt. Ákvæði samkeppnislaga setja hagsmunasamtökum skorður hvað varðar undirbúning og þátttöku í umræðu um atriði sem áhrif geta haft á verðlagningu. Að mati Samkeppniseftirlitisins hafði SFF haldið uppi vörnum um verðlagsstefnu aðildarfélaga sinna og þannig brotið gegn samkeppnislögum og fyrirmælum eldri ákvörðunar frá árinu 2004, sem beint hafði verið til Sambands íslenskra tryggingarfélaga (sem síðar urðu hluti af SFF) vegna samkeppnislagabrota. Með sáttinni gangast SFF við að hafa brotið gegn samkeppnislögum og fallast sem fyrr segir á að greiða 20 milljónir króna í stjórnvaldssekt.

Þá þarf SFF að skuldbinda sig til að birta upplýsingar um það á heimasíðu sinni til hvaða aðgerða þau hafa gripið til þess að tryggja að farið sé eftir fyrirmælum ákvörðunarinnar frá 2004 og með því komið í veg fyrir að brot endurtaki sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK