Verðbólga hefur reynst hærri og þrálátari bæði hér á landi og erlendis en flestir greiningaraðilar hafa gert ráð fyrir. Verðbólguhorfur næstu mánaða og missera hafa að sama skapi farið versnandi.
Þetta kemur fram í nýrri fjármálaáætlun fyrir árin 2023 til 2027.
Fram kemur að verðbólga hafi hækkað að undanförnu en sé þó mun minni hér á landi en í mörgum samanburðarríkjum. Verðbólga er nú 4,4% á Íslandi, samkvæmt samræmdri vísitölu neysluverðs, en um 6,2% í ríkjum Evrópusambandsins.
Í áætluninni segir að til skemmri tíma geti verðbólga bætt afkomu hins opinbera. Eftir því sem hún reynist þrálátari og verðbólguvæntingar hækki aukist líkur á meiri vaxtahækkunum. Þær muni að lokum draga úr efnahagsbatanum og um leið bata ríkisfjármála.
„Á smáu myntsvæði eins og Íslandi hafa miklar vaxtahækkanir umfram stærstu hagkerfi heims einnig óæskileg hliðaráhrif í formi aukinna líkinda á innstreymi sveiflukennds skammtímafjármagns. Meðal annars af þeim ástæðum er mikilvægt að stefna í fjármálum hins opinbera sé almennt aðhaldssamari en í stærri hagkerfum,“ segir í fjármálaáætlun.
Þar segir einnig að á grundvelli áætlunarinnar verði jafnvægi í ríkisfjármálum endurheimt í öruggum skrefum.
„Áhersla verður lögð á að koma böndum á verðbólgu, tryggja stöðugleika í hagkerfinu og stuðla þannig að hóflegu vaxtastigi fyrir heimili og fyrirtæki. Þar gegnir gott samspil ríkisfjármála, peningastefnu og vinnumarkaðar lykilhlutverki,“ segir þar.