Líklega nauðsynlegt að hækka vexti frekar

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á ársfundi Seðlabanka Íslands í dag.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á ársfundi Seðlabanka Íslands í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Verðbólgan sem braust fram með Covid-faraldrinum er áminning um þýðingu alþjóðavæðingar fyrir lífskjör okkar, þegar hinar fjölþjóðlegu framleiðslukeðjur urðu fyrir truflunum. Atburðir síðustu vikna, þegar Rússlandi hefur verið kippt út úr heimshagkerfinu með þvingunaraðgerðum munu hafa sömu áhrif.

Þetta sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á ársfundi Seðlabanka Íslands, sem haldinn var í Hörpu í dag.

Verðhækkanir muni hafa neikvæð áhrif

Benti hann einnig á að sú stefnubreyting sem orðið hefur hjá Vesturlöndum, að líta á alþjóðaviðskipti sem pólitískt vopn, muni „draga dilk á eftir sér“.

„Nú sitja fjölþjóðafyrirtæki heimsins á rökstólum og fara yfir aðfangakeðjur, vörudreifingu og dótturfélög og endurmeta pólitíska áhættu. Nú er einblínt á öryggi og það kostar. Í framhaldinu mun verða undið ofan af einhverju af alþjóðavæðingu síðustu ára og störf munu snúa til baka til Vesturlanda. Það mun leiða til verðhækkana til skamms og meðallangs tíma, og mun fyrirsjáanlega hafa neikvæð áhrif á lífskjör Íslendinga líkt og margra annarra.“

Þá sagði hann vaxtahækkanir Seðlabanka Íslands í fyrra hafa verið „óumflýjanlegar“ og að líklega verði nauðsynlegt að hækka vexti frekar svo hægt verði að hemja verðbólgu.

„Seðlabankinn ber hag heimilanna fyrir brjósti. Bankinn getur ekki leyft verðbólgu að grafa aftur um sig í íslensku samfélagi. Því fyrr og þeim mun ákveðnar sem við göngum til verks þeim mun minni kostnaður hlýst af því að viðhalda stöðugleika sem kemur öllum til góða.“

Frá ársfundi Seðlabanka Íslands í dag.
Frá ársfundi Seðlabanka Íslands í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Launahækkanir ekki vænlegar til vinnings

Þrátt fyrir allt það umboð sem Seðlabankinn hefur fengið geti hann ekki tryggt stöðugleika nema aðrir vinni að sama markmiði, ekki síst vinnumarkaðurinn, að sögn Ásgeirs.

„Annars er hætta á að við siglum inn í gömlu hringavitleysuna með víxlhækkunum launa og verðlags til tjóns fyrir alla. Enn verra væri að hringavitleysan endurspeglaðist í kröfum um að stýrivaxtahækkunum verði að mæta með launahækkunum.“

Það sé svo „deginum ljósara“ að Íslendingar geti ekki svarað þeirri verðbólgu, sem nú komi að utan, með hækkun launa, þar sem sú óumflýjanlega verðbólga, stafi af farsótt og stríði, sóttvörnum og þvingunaraðgerðum, hækkun hrávöruverðs og rofi á fjölþjóðlegum framleiðslukeðjum.

„Við þurfum að taka henni sem hverju öðru hundsbiti. Ella hverfum við til áranna eftir 1973. Með þessu er ég ekki að segja að íslenskt launafólk þurfi að færa fórnir. Nei, ég vil alls ekki að Íslendingar færi neinar fórnir heldur hafi það ávallt eins gott og mögulegt er.

Ég er aðeins að benda á bestu leiðina til þess að tryggja lífskjör þjóðarinnar þegar við þurfum nú að laga okkur að nýjum veruleika á alþjóðamörkuðum og í alþjóðasamskiptum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK