Hyggjast framleiða áburð með grænni orku

Tómas Már Sigurðsson, Eyjólfur Sigurðsson og Sigurjón Rúnar Rafnsson.
Tómas Már Sigurðsson, Eyjólfur Sigurðsson og Sigurjón Rúnar Rafnsson. Ljósmynd/Aðsend

HS Orka, Kaupfélag Skagfirðinga og Fóðurblandan hafa undirritað viljayfirlýsingu og hyggjast rannsaka hagkvæmni þess að reisa verksmiðju til framleiðslu á tilbúnum áburði hér á landi, að því er fram kemur í tilkynningu.

Markmið samstarfsins er meðal annars að taka þátt í innviðauppbyggingu í landinu, auka öryggi íslenskrar matvælaframleiðslu og kanna útflutningsmöguleika á áburði sem framleiddur er með grænni orku.

Fleiri störf verði sköpuð

Samstarfið felur í sér að framleiða kjarna með innlendri, grænni orku til að uppfylla þarfir fyrir tilbúinn áburð í föstu formi fyrir bændur og aðra sem á þurfa að halda fyrir ræktun.

Sigurjón Rúnar Rafnsson, aðstoðarkaupfélagsstjóri KS segir að ef útkoman verði jákvæð muni íslensk framleiðsla og fæðuöryggi þjóðarinnar aukast og fleiri störf verði sköpuð.

Innanlandsmarkaður fyrir tilbúinn áburð í föstu formi er um 45-50 þúsund tonn á ári og árleg þörf fyrir köfnunarefni, sem er aðalfrumefnið, er 10 þúsund tonn. Því er áætlað að framleiða þurfi 30 þúsund tonn af kjarna til að fá þetta magn af köfnunarefni.

Auka þurfi sjálfstæði í áburðarframleiðslu

„Þetta gefur okkur möguleika á að framleiða áburð með grænni orku og minnka með því kolefnisspor í íslenskum landbúnaði. Við erum háð óviðráðanlegum aðstæðum í löndunum í kringum okkur og þurfum því að auka sjálfstæði okkar í áburðarframleiðslu og nýta íslenska þekkingu til að byggja upp íslenska framleiðslu,“ segir Eyjólfur Sigurðsson, forstjóri Fóðurblöndunnar.

Þá segir Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku, að verkefnið muni styðja við innlenda hráefnisnotkun. Gert er ráð fyrir að hagkvæmnisathuguninni verði lokið í september.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK