Skiptum er lokið á þrotabúi fjárfestingafélagsins Icecapital ehf., en það hét áður Sund ehf. og hafði átt stóran hlut í öllum viðskiptabönkunum við hrun þeirra árið 2008. Samtals fengust 438,7 milljónir upp í 49,6 milljarða almennar kröfur að því er segir í auglýsingu í Lögbirtingablaðinu. Félagið var úrskurðað gjaldþrota í mars 2012 og tóku skiptin því rétt rúmlega áratug.
Sund varð til utan um eignir Óla Kr. Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra og eiganda Olís, en hann var jafnan kenndur við félagið. Ólafur lést árið 1992 og lét eftir sig eiginkonu sína, Gunnþórunni Jónsdóttur. Voru Gunnþórunn og börn hennar tvö af fyrra hjónabandi, Jón og Gabríela Kristjánsbörn, eigendur Sunds, hvert með þriðjungshlut.
Um áramótin 2007/2008 voru eignir félagsins metnar á um 36 milljarða og átti félagið meðal annars stóran hlut í bæði Kaupþingi og FL Group, en FL Group var jafnframt aðaleigandi Glitnis. Síðar eignaðist félagið beint bréf í Glitni í stað bréfanna í FL Group. Skuldir félagsins námu á þessum tíma um 21,2 milljörðum.
Félagið átti jafnframt stofnfjárbréf í Byr sparisjóði og SPRON og hlutabréf í VBS fjárfestingabanka.
Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2008 höfðu eignir félagsins lækkað um tæplega 27 milljarða í fjármálahruninu og var tap félagsins þá 32,3 milljarðar og skuldir 27,6 milljarðar. Höfðu meðal annars öll bréf félagsins í viðskiptabönkunum orðið verðlaus, en í ársreikningi er sú niðurfærsla metin á 13,2 milljarða. Þá var verðmat annarra hlutabréfa, bæði innlendra og erlendra, lækkað verulega sem og bókfært verð dótturfélaga Icecapital, en sum þeirra urðu gjaldþrota við hrunið.
Var eigið fé Icecapital í kjölfarið metið neikvætt um 17,6 milljarða en hafði verið jákvætt um 15,2 milljarða árið áður.
Helstu kröfuhafar í þrotabú Icecapital voru Arion banki, Landsbankinn, Landsbankinn í Lúxemborg, íslenska ríkið og Glitnir.Félagið var á sínum tíma tekið til skipta eftir ágreining við Arion banka um uppgjör lána. Tapaði Icecapital málinu fyrir dómstólum og fór bankinn í kjölfarið fram á gjaldþrot.
Sem fyrr segir fengust 438,7 milljónir upp í 49,6 milljarða almennar kröfur sem lýst var í félagið, eða um 0,88%.