49 milljarða gjaldþrot Icecapital

Icecapital var úrskurðað gjaldþrota í mars 2012.
Icecapital var úrskurðað gjaldþrota í mars 2012. Ljósmynd/Colourbox

Skipt­um er lokið á þrota­búi fjár­fest­inga­fé­lags­ins Icecapital ehf., en það hét áður Sund ehf. og hafði átt stór­an hlut í öll­um viðskipta­bönk­un­um við hrun þeirra árið 2008. Sam­tals feng­ust 438,7 millj­ón­ir upp í 49,6 millj­arða al­menn­ar kröf­ur að því er seg­ir í aug­lýs­ingu í Lög­birt­inga­blaðinu. Fé­lagið var úr­sk­urðað gjaldþrota í mars 2012 og tóku skipt­in því rétt rúm­lega ára­tug.

Sund varð til utan um eign­ir Óla Kr. Sig­urðsson­ar, fyrr­ver­andi for­stjóra og eig­anda Olís, en hann var jafn­an kennd­ur við fé­lagið. Ólaf­ur lést árið 1992 og lét eft­ir sig eig­in­konu sína, Gunnþór­unni Jóns­dótt­ur. Voru Gunnþór­unn og börn henn­ar tvö af fyrra hjóna­bandi, Jón og Gabrí­ela Kristjáns­börn, eig­end­ur Sunds, hvert með þriðjungs­hlut.

Um ára­mót­in 2007/​2008 voru eign­ir fé­lags­ins metn­ar á um 36 millj­arða og átti fé­lagið meðal ann­ars stór­an hlut í bæði Kaupþingi og FL Group, en FL Group var jafn­framt aðal­eig­andi Glitn­is. Síðar eignaðist fé­lagið beint bréf í Glitni í stað bréf­anna í FL Group. Skuld­ir fé­lags­ins námu á þess­um tíma um 21,2 millj­örðum.

Fé­lagið átti jafn­framt stofn­fjár­bréf í Byr spari­sjóði og SPRON og hluta­bréf í VBS fjár­fest­inga­banka.

Sam­kvæmt árs­reikn­ingi fyr­ir árið 2008 höfðu eign­ir fé­lags­ins lækkað um tæp­lega 27 millj­arða í fjár­mála­hrun­inu og var tap fé­lags­ins þá 32,3 millj­arðar og skuld­ir 27,6 millj­arðar. Höfðu meðal ann­ars öll bréf fé­lags­ins í viðskipta­bönk­un­um orðið verðlaus, en í árs­reikn­ingi er sú niður­færsla met­in á 13,2 millj­arða. Þá var verðmat annarra hluta­bréfa, bæði inn­lendra og er­lendra, lækkað veru­lega sem og bók­fært verð dótt­ur­fé­laga Icecapital, en sum þeirra urðu gjaldþrota við hrunið.

Var eigið fé Icecapital í kjöl­farið metið nei­kvætt um 17,6 millj­arða en hafði verið já­kvætt um 15,2 millj­arða árið áður.

Helstu kröfu­haf­ar í þrota­bú Icecapital voru Ari­on banki, Lands­bank­inn, Lands­bank­inn í Lúx­em­borg, ís­lenska ríkið og Glitn­ir.Fé­lagið var á sín­um tíma tekið til skipta eft­ir ágrein­ing við Ari­on banka um upp­gjör lána. Tapaði Icecapital mál­inu fyr­ir dóm­stól­um og fór bank­inn í kjöl­farið fram á gjaldþrot.

Sem fyrr seg­ir feng­ust 438,7 millj­ón­ir upp í 49,6 millj­arða al­menn­ar kröf­ur sem lýst var í fé­lagið, eða um 0,88%.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK