Skúli selur eignir fyrir 5,5 milljarða króna

Skúli Gunnar Sigfússon.
Skúli Gunnar Sigfússon. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skúli Gunnar Sigfússon, oft kenndur við Subway á Íslandi, seldi í dag fasteignir til fasteignafélagsins Regins fyrir um 5,5 milljarða króna. Reginn tilkynnti um kaupin í Kauphöll fyrir stundu en þau eru gerð með fyrirvara um áreiðanleikakönnun og fráfalli forkaupsréttar.

Um er að ræða fasteignir við Hafnarstræti 17-19, Hafnarstræti 18 og Þingholtsstræti 2-4 í Reykjavík. Eignirnar við Hafnarstræti voru í eigu Suðurhúsa ehf., sem er fjárfestingafélag í eigu Skúla, Sigríðar Kolbeinsdóttur og dætra þeirra. Eignirnar við Þingholtsstræti voru i eigu Staðarfjalls ehf., sem er í eigu Skúla.

„Ég hef á liðnum áratug varið umtalsverðum tíma og fjármagni í framkvæmdir á þessum reitum, endurbyggingu húsnæðisins við Þingholtsstræti og síðar uppbyggingu við Hafnarstræti. Nú er þeim áföngum lokið og ég geng stoltur frá því verki,“ segir Skúli í samtali við mbl.is, spurður um ástæður þess að hann skuli nú selja eignirnar.

„Þrátt fyrir óróa í hagkerfinu eru markaðsaðstæður hagstæðar um þessar mundir en ég mun einbeita mér að öðrum eignum í minni eigu, þar með talið uppbyggingarverkefnum og öðrum rekstri. Ég er ánægður að þessar fallegu eignir séu komnar í eigu trausts aðila sem mun halda þeim vel við í framtíðinni.“

Við Hafnarstræti 17-19 stendur Reykjavík Konsúlat Hotel sem rekið er af Icelandair Hotels, en Skúli fjárfesti í eigninni árið 2010 og reisti þar hótelið og verslunarhúsnæði. Framkvæmdir standa yfir við Hafnarstræti 18 og eru langt komnar.

Skúli fjárfesti í Þingholtsstræti 2-4 árið 2008 og lét í framhaldinu endurbyggja stóran hluta af því húsnæði og byggði hótelíbúðir við húsið. Fyrsti hluti hússins var byggður árið 1884.

Heildarfermetrafjöldi fasteignanna er 6.777 m2, að stærstum hluta hótel og gististarfsemi. Í tilkynningu Regins kemur fram að kaupin verði fjármögnuð að fullu með handbæru fé og lánsfé. Áætlaðar leigutekjur miðað við fulla útleigu fasteignanna á ársgrundvelli nema um kr. 440 milljónum og áætluð leiguarðsemi er 6,5%. Ráðgjafi Regins í viðskiptunum er Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka