Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, segir rangt með farið að forsendur útboðs og sölu á 22,5% hluta ríkisins í Íslandsbanka séu brostnar, og að lög hafi verið brotin. Hvergi hafi komið fram að einblína ætti á langtímafjárfesta í útboðinu eða að takmarka ætti fjölda þeirra við nokkra tugi, eins og hefur verið haldið fram.
Í samtali við mbl.is segir hann aðilana á listanum ekki hafa verið handvalda heldur hafi einfaldlega verið stuðst við skilgreiningu um „hæfa fjárfesta“ og því hafi engum verið neitað um að taka þátt sem stóðst þá kröfu.
Í viðtali sem birtist á Kjarnanum segir Sigríður Benediktsdóttir, hagfræðingur við Yale háskóla og fyrrverandi framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands, að sölumeðferðin á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka hafi brotið í bága við 3. grein og mögulega 2. grein laga um sölumeðferð eignarhluta í ríkisins í fjármálafyrirtækjum.
Þar er m.a. kveðið á um að þegar ákvörðun er tekin um undirbúning og framkvæmd sölu skuli áhersla vera lögð á opið söluferli, gagnsæi, hlutlægni og hagkvæmni.
Á brotið að felast í því að valdir voru yfir 150 aðilar sem keyptu magn bréfa sem var svo lítið að það hefði ekki hreyft við markaðsvirði Íslandsbanka ef þeir hefðu keypt bréfin á eftirmarkaði.
Jón Gunnar vísar því á bug að lög hafi verið brotin og segir hann ekki samræmi milli umræddra lagagreina og þess sem Sigríður vitnar í.
Hann hafnar því að forsendur útboðsins hafi ekki staðist og tekur hann fram að áhersla hafi verið lögð á dreift eignarhald og fjölbreytileika í eigandahópi. Þá hafi aftur á móti verið lögð áhersla á að langtímafjárfestar verði fyrir minni skerðingu en skammtímafjárfestar.