Sigríður Benediktsdóttir, hagfræðingur við Yale-háskóla og fyrrverandi framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands, telur að lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum hafi verið brotin við sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.
Þetta segir Sigríður í samtali við Kjarnann.
Sigríður starfaði áður við Yale á árunum 2007–2012, þó með hléi á árunum 2009–2010 þegar hún sat í rannsóknarnefnd Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna árið 2008.
Að hennar sögn er það svo að þegar 150 aðilar eru valdir til að kaupa magn bréfa sem sé svo lítið að það hefði ekki hreyft við markaðsvirði Íslandsbanka ef þeir hefðu keypt á eftirmarkaði þá brjóti það í bága við 3. grein og mögulega 2. grein umræddra laga.
„Á grundvelli þess þarf einhver að axla ábyrgð fyrir að hafa heimilað þetta og auk þess þarf að rifta þessum viðskiptum við einstaklinga og ehf., enda eru þau ekki í samræmi við lög og kaupendum og miðlurum hefði mátt vera það ljóst sem og því stjórnvaldi sem heimilaði þetta,“ segir Sigríður.