Fjármálaeftirlit Seðlabankans hefur hafið rannsókn á tilteknum þáttum tengdum sölunni á Íslandsbanka. Þetta kemur fram í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is.
„Í ljósi eftirlitshlutverks Seðlabanka Íslands getur bankinn ekki tjáð sig um málefni sem eru beintengd sölu ríkisins á eignarhlut í Íslandsbanka. Ástæðan er sú að einstakir þættir sem tengjast sölunni kunna að verða teknir til skoðunar hjá fjármálaeftirliti Seðlabankans og hefur athugun á tilteknum þáttum tengdum sölunni þegar hafist,“ segir í svarinu.
Þá kemur fram að í eftirlitshlutverki Seðlabankans felist aftur á móti ekki eftirlit með Bankasýslu ríkisins. Bankasýsla ríkisins svaraði fyrir sig fyrr í dag og gaf út athugasemdir vegna fullyrðinga sem höfðu komið fram varðandi útboðið.
Margir hafa gagnrýnt söluna á bréfunum í Íslandsbanka, þar á meðal Lilja Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.
Segir í svari Fjármálaeftirlitsins að Seðlabankanum sé ekki heldur falið eftirlit með framkvæmd laga nr. 155/2012 um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.
Seðlabankinn skilaði hins vegar inn lögbundinni umsögn á grundvelli 2. gr. framangreindra laga um fyrirætlun ríkisins um sölumeðferð á eignarhlut í Íslandsbanka er lýtur eingöngu að jafnræði bjóðenda, líklegum áhrifum sölu á gjaldeyrismarkað, gjaldeyrisforða og laust fé í umferð.
„Með jafnræði bjóðanda í þessu samhengi er átt við að Seðlabankinn kanni áhrif þess á efnahagslega þætti málsins, þ.e. hvort kaupendur séu erlendir eða innlendir, og er það arfleifð frá því að fjármagnshöft voru við lýði. Eiga sjónarmið þar að lútandi ekki við lengur þar sem höft hafa verið afnumin og fullt jafnræði ríkir milli innlendra og erlendra aðila,“ segir í svarinu.