Algengt er að Íslendingar framlengi nú dvöl sína erlendis eftir heimsfaraldur. Því má segja að þegar fólk er komið erlendis sé erfitt að snúa heim og kjósa margir því að lengja ferðina. Flestir framlengja á síðustu þremur dögunum og bæta við ferðina öðrum þremur til sjö dögum. Þetta segja upplýsingafulltrúar íslensku flugfélagann í samtali við ViðskiptaMogga nú þegar eitt mesta ferðatímabil þjóðarinnar er að ganga í garð.
Birgir Olgeirsson, upplýsingafulltrúi hjá Play, segist finna fyrir miklum uppsöfnuðum ferðaþorsta í landanum og eftirspurnin eftir sól sé mikil. Guðni Sigurðsson, samskiptastjóri Icelandair, segir nánast uppselt í öll flug á sólríka áfangastaði í kringum páskatímabilið og að sala fyrir næstu páska sé þegar farin af stað. Ferðaskrifstofan Vita hefur, í samstarfi við Icelandair, gert hvað þau geta til að hjálpa til við framlengingar þegar möguleiki gefst en nú sé allt að fyllast og svigrúmið því minna.
Viðspyrna alþjóðaflugsins hefur gengið vel og ekki er langt í það að framboðið verði á við það sem það var fyrir heimsfaraldurinn.
Ferðir hjá Play og Icelandair fara nú að verða uppseldar á alla þá áfangastaði þar sem ferðalangar geta búist við mikilli sól. Skíðaferðir eru einnig gríðarlega vinsælar og hafa nær selst upp sömuleiðis. Að sögn Guðna er ferðaþörfin raunar svo mikil að sala á skíðaferum fyrir næstu tvö skíðatímabil er einnig hafin, en það eru jólin og páskar næsta árs.
Hjá Icelandair fór flug í sól og á skíði fljótt af stað eftir Covid-faraldurinn og sala á þeim ferðum náði sínu fyrra horfi snemma. Nú er hinsvegar komin meiri fjölbreytni í ferðaval Íslendinga og borgarferðir Evrópu að verða vinsælli aftur og þá komi fjölbreytni áfangastaða flugfélagsins sér vel, en áfangastaðirnir í beinu flugi eru nú orðnir 42 talsins.
Raunar eru borgarferðirnar að verða svo vinsælar að bæði íslensku flugfélögin eru að bæta við áfangastöðum. Icelandair hóf morgunflug til Boston í síðustu viku sem farið hefur vel af stað að sögn Guðna og er vinsælt sem tengiflug milli Evrópu og vesturstrandar Bandaríkjanna.
Birgir hjá Play segir að allir áfangastaðir séu vinsælir fyrir páskana, þó að Tenerife skeri sig úr og sé langsamlega vinsælasta flugið. Síðar í vor ætli Play þó að bæta við tveimur sólríkum áfangastöðum og hefja flug til Mallorca og Lisbon, ásamt því að fara í sitt fyrsta Bandaríkjaflug, sem áætlað er til Baltimore.