Elon Musk hefur verið sakaður um að hafa með ólöglegum hætti leynt því að hann ætti hlut í samfélagsmiðlinum Twitter til að geta keypt fleiri hlutabréf í fyrirtækinu fyrir lægri upphæð.
CBS greinir frá þessu.
Musk var stefnt fyrir dómstóla í New York í dag. Þar var hann ásakaður um að hafa gagngert beðið með að birta upplýsingar um að hann hafi öðlast meira en fimm prósent hlut í fyrirtækinu fram yfir þá dagsetningu sem hann var skyldugur til samkvæmt lögum.
Í staðinn upplýsti Musk ekki um hlut sinn í Twitter fyrr en hann var búinn að svo gott sem tvöfalda hlut sinn í fyrirtækinu í níu prósent.
Musk keypti fyrst 620.000 hluti í Twitter 31. janúar fyrir 36 bandaríkjadali á hvern hlut og hélt síðan áfram að kaupa hluti í Twitter á næstum hverjum degi sem markaðurinn var opinn þangað til hann átti um 73,1 milljón hlut í fyrirtækinu. Það nemur um níu prósent hluta í Twitter sem gerir Musk að stærsta hluthafanum í fyrirtækinu.
Samkvæmt stefnunni á hendur Musk var hann kominn með fimm prósent hlut í fyrirtækinu þann 14. mars sem gerði hann skyldugan til að tilkynna eignarhlut sinn samkvæmt lögum í Bandaríkjunum í síðasta lagi 24. mars. Musk gerði það þó ekki fyrr en 4. apríl.
Við tilkynningu Musk rauk verð bréfa í Twitter upp um 27 prósent og því ljóst að þeir sem seldu Musk bréf á milli 24. mars og 4. apríl hefðu getað selt þau talsvert dýrar ef rétt hefði verið staðið að tilkynningunni.
Til viðmiðunar má athuga að þegar Musk keypti bréf í Twitter kostuðu þau á milli 36 dali til 41 dal en eftir tilkynningu hans kostuðu þau um 50 dali.