Isavia ANS ehf., dótturfélag Isavia ohf., sem annast flugleiðsöguþjónustu á Íslandi og í íslenska flugstjórnarsvæðinu yfir Norður-Atlantshafi, hóf nýlega notkun á ADS-B geimkögun í norðurhluta svæðisins sem nær upp á Norðurpól.
Innleiðingin var samstarf við fyrirtækið Aireon sem rekur ADS-B mótttakara á gervitunglum sem eru á sporbaug um jörðu. Vegna þess að gervitunglin eru á sporbaug um norður- og suðurpól getur Aireon boðið upp á kögunardrægi á heimsvísu. Með þessum áfanga eykst öryggi í svæðinu og opnast möguleikar til greininga á fluggögnum og framtíðarrekstrarhagkvæmni.
Fram kemur í tilkynningu að Isavia ANS hafi verið í fararbroddi í notkun á ADS-B frá 2014 og nýlega í geimkögun frá því árið 2020 þegar notkun þess í suðurhluta flugstjórnarsvæðisins hófst. Með tilstilli ADS-B tækninnar geta flugumferðarstjórar Isavia ANS nú í fyrsta sinn fengið nákvæma staðsetningu flugvéla upp á sekúndu í öllu 5,4 milljón ferkílómetra loftrými sínu sem nær frá Norðurpólnum suður fyrir Ísland og frá Greenwich lengdarbaugnum vestur fyrir Grænland.
„Með því að bæta við ADS-B þjónustu frá Aireon í norðurhluta flugstjórnarsvæðisins eykst öryggi þjónustunnar sem við bjóðum upp á og gefur tæknin okkur tækifæri til hagræðingar til framtíðar. Þetta bætir gæðin í eftirlitsgögnum Isavia ANS fyrir svæðið sem tengir Evrópu og Norður-Ameríku,“ segir Kjartan Briem, framkvæmdastjóri Isavia ANS. „Nú sem fyrr var innleiðingarferli Aireon og teymi þeirra til fyrirmyndar í öllu ferlinu og við erum stolt af samstarfi okkar við fyrirtækið.“