Stjórn Twitter hefur gripið til aðgerða vegna mögulegrar fjandsamlegrar yfirtöku (e. hostile takeover) í kjölfar þess að milljarðamæringurinn Elon Musk gerði 43 milljarða dollara kauptilboð í fyrirtækið.
Stjórnin hefur nú samþykkt nýjar reglur sem koma í veg fyrir að einstaka hluthafar geti átt meira en 15% hlut í fyrirtækinu. Þetta er gert með því að leyfa öðrum fjárfestum að kaupa fleiri hluti á afslætti.
Í yfirlýsingu frá stjórninni segir að þörf hafi verið á reglunum vegna „óumbeðins, óbindandi tilboðs um kaup á Twitter“ af hálfu Musk.
Fram kemur í frétt BBC að tilboð um yfirtöku sé talið fjandsamlegt þegar fyrirtæki reynir að yfirtaka annað gegn óskum stjórnanda þess fyrirtækis – í tilfelli Twitter framkvæmdastjórn þess. Reglurnar eru svo kallað eitrað peð (e. poison pill) sem er síðasta vörn fyrirtækja gegn fjandsamlegri yfirtöku.