Stjórn Bankasýslu ríkisins hefur birt athugasemd vegna nýafstaðins útboðs á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka. Þar kemur m.a. fram að stjórnin skoði nú lagalega stöðu sína gagnvart söluaðilum og muni að óbreyttu ekki greiða umsamda söluþóknum í tilvikum þar sem ágallar hafi verið við sölu á hlut ríkisins til hæfra fagfjárfesta.
Fyrir hádegi var greint frá því að ríkisstjórnin hefði ákveðið að leggja það til við Alþingi að Bankasýsla ríkisins yrði lögð niður og innleitt yrði nýtt fyrirkomulag til að halda utan um eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.
Stjórnin segir í athugasemdinni, að undanfarið hafi framkvæmd útboðsins sem fram fór 22. mars verið harðlega gagnrýnt. „Um var að ræða lokað útboð sem eingöngu var ætlað hæfum fagfjárfestum. Upp hefur komið vafi um hvort kröfum um hæfi fjárfesta hafi verið fylgt eftir af þeim fjármálafyrirtækjum sem sáu um sölu á hlut ríkisins í áðurnefndu útboði. Einnig eru til athugunar mögulegir hagsmunaárekstrar einstakra söluaðila við kaup starfsmanna eða tengdra aðila á hlutum í bankanum.
Bankasýsla ríkisins fer með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum skv. lögum nr. 88/2009 og gegnir hlutverki í sölumeðferð þeirra skv. lögum nr. 155/2012. Hvergi í þeim lögum hefur stofnunin heimildir til eftirgrennslan eða athugunar á framangreindum atriðum. Fjármálaeftirlitið hefur aftur á móti slíkar heimildir skv. lögum og hefur það nú hafið athugun á áðurnefndum þáttum tengdum útboðinu og mun skila niðurstöðu innan fárra vikna. Bankasýsla ríkisins fagnar þeirri athugun,“ segir stjórn Bankasýslunnar.
Þá segir, að Fjármálaeftirlitið skoði meðal annars hæfi þeirra fagfjárfesta sem fengu að kaupa en það hafi verið hlutverk söluaðila að meta það enn ekki Bankasýslu ríkisins.
„Komi í ljós að einhverjir söluaðilar hafi ekki staðið undir því trausti sem Bankasýslan gerði til þeirra mun það hafa áhrif á söluþóknanir til þeirra. Stjórn Bankasýslu ríkisins skoðar nú lagalega stöðu sína gagnvart söluaðilum og mun að óbreyttu ekki greiða umsamda söluþóknum í tilvikum þar sem ágallar voru við sölu á 22,5% hlut ríkisins til hæfra fagfjárfesta.“