„Bara það að átta sig á því hversu mörg leyfi eru í gistingu á landinu, hvað það eru mörg herbergi á bak við það og af hvaða týpu. Þetta er allt til í lokuðu skjali hjá sýslumanninum á Ísafirði sem þverneitar að afhenda okkur. Bara til að nefna eitt dæmi um það hvernig kerfið er ekki alveg að vinna með okkur við að halda utan um þessar tölulegu upplýsingar.“
Er ekki hægt að kalla þetta skjal fram á einhverri opinni heimasíðu?
„Nei það er því miður ekki hægt. Við höfum sent nokkra tölvupóst um að fá aðgang að þessu opinberlega en það gengur illa.“
Hvað er svona leynilegt og hættulegt í þessum gögnum?
„Ég held að það væri upplagt að þú spyrðir sýslumanninn út í það.“
Þessi orð lætur Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, falla í nýju viðtali á vettvangi Dagmála þar sem farið er vítt yfir sviðið og staðan tekin á greininni sem nú er að vakna af eins konar þyrnirósarblundi eftir hamfaraár kórónuveirunnar.
Segir hann að gera þurfi mun betur í því að greina stöðu ferðaþjónustunnar og áhrif hennar á íslenskt hagkerfi en nú er gert. Nefnir hann sem dæmi að Hafrannsóknastofnun haldi úti öflugu starfi vegna nýtingar fiskistofna og að fara þyrfti jafn öfluga leið þegar kemur að atvinnugrein sem til skamms tíma var orðin sú mest gjaldeyrisskapandi í landinu, þ.e. áður en veirufaraldurinn setti allt úr skorðum.
Jóhannes segir tækifærin blasa við greininni og að mikil eftirspurn sé eftir því að komast til landsins. Eftirspurnarhlið jöfnunnar sé því nokkuð sterk en meiri óvissa sé uppi um getu ferðaþjónustufyrirtækja til þess að anna henni svo að vel sé. Manna þurfi stöður og koma innviðum, sem legið hafa ónotaðir að nokkru marki síðustu tvö árin, aftur í gang. Það geti tekið tíma. Hann er þó trúaður á að vel muni takast til.
Viðtalið við Jóhannes Þór geta áskrifendur Morgunblaðsins nálgast á mbl.is eða með því að smella hér.