Seðlalaugin Secret Lagoon og skrautleg saga Gunnars majones

Arnar Þór Ólafsson og Ingvi Þór Georgsson, umsjónarmenn Pyngjunnar.
Arnar Þór Ólafsson og Ingvi Þór Georgsson, umsjónarmenn Pyngjunnar.

Pyngjubræður halda áfram að rýna í ársreikninga ýmissa fyrirtækja. Í nýjasta þættinum er farið yfir drekkhlaðnar pyngjur Secret Lagoon og velt vöngum yfir því hvernig fór fyrir majonesveldi Gunnars sem nú er til sölu í annað skipti.

Í þættinum er farið yfir ævintýralegum uppgang og arðsemi elstu sundlaugar Íslands, sem í dag er þekktust undir nafninu Secret Lagoon á Flúðum. Segja má að vöxtur félagsins hafi farið á flug árið 2015 með 79 milljóna króna veltu en árið 2019 var hún orðin 632 milljónir, sem verður að teljast nokkuð myndarlegur vöxtur á stuttum tíma.

„Hlýtur að vera einn af sigurvegurum íslenskrar ferðaþjónustu síðastliðinn áratug, þá sérstaklega með tilliti til EBITDA og hagnaðarhlutfalla,“ segir Ingvi Þór, annar umsjónarmanna þáttarins, en árið 2019 var EBITDA hlutfall félagsins um 64% og rekstrarhagnaður eftir afskriftir 402 milljónir.

Þó Covid-19 faraldurinn hafi líklega reynst félaginu erfiður náði reksturinn 36% EBITDA hlutfalli í 170 milljóna króna veltu og ber höfuð og herðar yfir aðra í baðlónabransanum.

„Þegar skítugir ferðamenn byrja aftur að streyma til landsins verður gaman að sjá hvort Gamla laugin, VÖK á Egilsstöðum og GeoSea á Húsavík munu ná að standa í stórveldinu Bláa lóninu ásamt nýjum keppinautum eins og Sky Lagoon. Það er svo sannarlega arðbærara að baða ferðamenn úr vatninu okkar heldur en selja þeim það á flöskur,“ segir Ingvi Þór.

Gunnars majones aftur til sölu

Síðustu rekstrarár Gunnars eru þó ekki eins farsæl og Leynilaugarinnar, en líkt og kemur fram í umfjöllun þá er fyrirtækið á sölu sem stendur og var það hvati þeirra félaga til að skoða rekstur félagsins nánar.

Eftir fráfall Gunnars sjálfs tóku dætur hans, Helen og Nancy, við rekstri félagsins og fer Arnar yfir ævintýralegar sögur úr rekstrinum í þeirra tíð. Þá ber helst að nefna ferðafíkn Helen og hvernig hún ferðaðist til 40 landa á þremur árum, fjögurra milljón króna mánaðarlauna þeirra systra og „eldgamlar, kalkaðar kerlingar“ á launaskrá fyrirtækisins. Inn í söguna fléttist svo Kleópatra Kristbjörg sem þær systur tala um sem frelsara, heilara og yfirnáttúrulega veru.

Kleópatra er kynnt til leiks þegar veldið var farið að riða til falls undir stjórn þeirra Helen og Nancy árið 2006 og á hún samkvæmt þeim systrum að hafa bjargað rekstrinum. Það varði þó skammt því árið 2014 var félagið úrskurðað gjaldþrota. Rekstri Gunnars var þó haldið áfram undir nýrri kennitölu en Kleópatra, þáverandi framkvæmdastjóri félagsins, keypti allt þrotabúið á einungis 62,5 milljónir króna undir merkjum Gunnars ehf. og fékk til þess 100% seljendalán. Olli þetta miklu fjaðrafoki í fjölmiðlum þar sem Kleópatra sat beggja megin borðsins þegar kaupsamningur var gerður og fór málið m.a. fyrir dómstóla.

Hér er um vægast sagt sérstaka sögu að ræða og fara þeir félagar nánar ofan í kjölinn í umfjöllun ásamt því að velta vöngum yfir ástæðu sölulistunar félagsins í dag.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Secret Lagoon á Flúðum.
Secret Lagoon á Flúðum.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK