Fjárlaganefnd Alþingis átti að funda opinberlega um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka, ásamt stjórnarformanni og forstjóra bankasýslu ríkisins í dag, en þeim fundi var seint í gærkvöldi frestað fram á miðvikudag, þar sem bankasýsla ríkisins hafði ekki náð að klára minnisblað um söluna. Þetta staðfestir Bryndís Haraldsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem kveðst jafnframt gáttuð á þessari málavöxtu. „Ég er mjög hissa á þessari framgöngu bankasýslunnar. Þetta er eiginlega óásættanlegt með öllu,“ segir Bryndís.
Fjárlaganefnd hefur óskað eftir svörum við spurningum í 19 töluliðum en séu stafliðir taldir með telja þær á fimmta tug. Er þar spurt meðal annars um hvernig hafi verið staðið að vali söluaðila á hlutabréfum ríkissjóðs í Íslandsbanka, hvers vegna innlendir söluaðilar hafi verið fimm talsins og hvernig samið hafi verið um þóknun til þeirra aðila.
Þá var því velt upp hver vitneskja fjármálaráðherra hafi verið um áætlaðan kostnað og möguleg frávik.
Jón Gunnar Jónsson forstjóri bankasýslunnar gaf ekki kost á viðtali þegar Morgunblaðið leitaði eftir því í gærkvöldi.