Talið er að samningar séu að nást á milli Elon Musk og hluthafa Twitter Inc. um kaup hans á fyrirtækinu og þar með samfélagsmiðlinum Twitter og að það verði staðfest seinna í dag. Lokatilboð milljarðamæringsins er 54,20 dollarar fyrir hlutinn staðgreitt, sem yrði þá 43 milljarðar bandaríkjadala, eða sem nemur um 5.630 milljörðum íslenskra króna.
Þegar stjórn Twitter hefur farið yfir tilboðið og mælt með kaupunum við hluthafa fyrirtækisins er búist við tilkynningu frá fyrirtækinu. Hins vegar er enginn samningur í hendi fyrr en allt er undirskrifað, og það er alltaf möguleiki að samningurinn gangi ekki eftir á síðustu metrunum.
Twitter tókst ekki í samningnum, sem nú er á borðinu, að setja inn ákvæði sem heimilaði fyrirtækinu að leita tilboða annarra eftir undirskrift nema að greiða Elon Musk riftunargjald, að því er Reuters greinir frá.
Hvorki Elon Musk né talsmenn Twitter hafa viljað tjá sig um stöðuna á þessum tímapunkti.