Stjórn Twitter samþykkti í dag yfirtökutilboð Elon Musk, forstjóra Tesla, um kaup hans á fyrirtækinu en tilboðið hljóðar upp á 44 milljarða bandaríkjadali.
Frá þessu greinir fréttaveita AFP.
Musk, sem gerði tilboðið fyrir tæpum tveimur vikum, hefur haldið því fram að hann sé rétta manneskjan til að leysa úr læðingi „ótrúlega möguleika“ samfélagsmiðilsins.
Þar að auki hefur hann stungið upp á fjölda breytinga á miðlinum, svo sem liðkun á reglum þess um tjáningarfrelsi og upprætingu gervi-aðganga.
Stjórn fyrirtækisins hafnaði upphaflegu tilboði Musk en hún mun nú biðja hluthafa þess að kjósa um hvort nýja tilboð hans verði samþykkt.
„Tjáningarfrelsi er grunnur lýðræðis og Twitter er stafræna bæjartorgið þar sem deilt er um málefni sem mikilvæg eru fyrir framtíð mannkyns,“ er haft eftir Musk í sameiginlegri tilkynningu um yfirtökuna.