Í aprílmánuði hækkaði vísitala neysluverðs um 1,25% frá fyrri mánuði og mælist verðbólgan nú 7,2% en hún var til samanburðar 6,7% í marsmánuði. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar.
Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkar um 0,99% frá mars 2022, og er nú 5,3%.
Verð á mat og drykkjarvörum hækkaði um 1,4% en áhrifin á vísitöluna eru 0,20%. Þar af voru mjólkurvörur 0,13%.
Verð á flugfargjöldum til útlanda hækkaði um 22,9% en áhrifin á vísitöluna mælast 0,37%.
Eins og fram kom í Morgunblaðinu fyrr í vikunni hækkar verð á hrávöru hratt þessa dagana og möguleiki er á skorti á ákveðnum hráefnum til lengri tíma.
Bergþóra Baldursdóttir, sérfræðingur hjá greiningardeild Íslandsbanka, segist í samtali við Morgunblaðið í dag gera ráð fyrir aukinni innfluttri verðbólgu á næstu mánuðum vegna hækkana á hrávöruverði erlendis og truflana í aðfangakeðju vegna Covid og stríðsins í Úkraínu.
Verðbólguspá Íslandsbanka gerir ráð fyrir að verðbólgan muni ná hámarki í 7,7% í sumar.