Stærsti repjuolíuframleiðandi Landsins, Sandhóll í Meðallandi, Skaftárhreppi í Vestur-Skaftafellssýslu, hyggst auka framleiðslu sína um fjörutíu prósent á þessu ári til að bregðast við mögulegum skorti á innfluttri matarolíu og hækkandi innflutningsverði vegna stríðsins í Úkraínu og Covid-faraldursins. Sandhóll selur alla sína framleiðslu innanlands.
Örn Karlsson framkvæmdastjóri og bóndi á Sandhóli segir að búið hafi getu til að auka framleiðsluna töluvert. „Við ætlum að gefa aðeins í. Við erum orðin mun samkeppnishæfari í verði vegna hækkana erlendis. Salan hefur verið stöðug hjá okkur í gegnum árin en þeir höfðu samband við okkur frá Bónus og spurðu hvort við gætum bætt aðeins í. Ég sagðist geta það, en fræið þyrfti að fara í jörð ekki seinna en strax,“ segir Örn.
Hann segir að samkvæmt fréttum utan úr heimi séu breskar matvöruverslanir byrjaðar að skammta matarolíu til að fólk fari ekki að hamstra. Það lýsi stöðunni á mörkuðum ágætlega. „Hér er mikil framleiðslugeta og nægt land og því getum við gefið verulega í ef við sjáum fram á að geta selt meira.“
Örn segir að það borgi sig þó að fara varlega svo hann sitji ekki uppi með kostnað ef viðbótarmagnið selst ekki.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út laugardaginn 30. apríl.