Eigendur bílaleigunnar ALP, sem rekur Avis og Budget, hafa ákveðið að selja fyrirtækið. Þetta staðfestir Dag Andre Johansen, framkvæmdastjóri norska fjárfestingarfélagsins RAC Group, við Morgunblaðið. ALP er ein stærsta bílaleigan á Íslandi.
RAC á 45,9% hlut í ALP á móti Ljúf ehf. sem á 54,1%.
Johansen segir aðspurður í skriflegu svari til Morgunblaðsins að hvorki sé hægt að upplýsa að svo stöddu um hugsanlega kaupendur né kaupverð.
„Fjárfestingarfélagið RAC Group er nú við lok sinna lífdaga. Við höfum keypt, byggt upp og endurskipulagt mörg fyrirtæki í gegnum tíðina og nú er svo komið að ALP er það eina sem eftir er í eignasafninu,“ segir Johansen.
RAC keypti hlutinn í ALP ehf. árið 2012 og fjárfesti þá í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans sem fól í sér fimm ára skuldbindingu.
Johansen segir að ALP hafi sýnt það og sannað að það hafi getu til að standa af sér erfiða tíma og fyrirtækið sé vel búið undir komandi ár. „Við trúum að nú sé góður tími til að selja fyrirtækið,“ segir Johansen.