Arion banki hagnaðist um 5,8 milljarða á fyrsta ársfjórðungi, samanborið við 6 milljarða á sama tíma í fyrra. Arðsemi eigin fjár var 12,7% og hækkaði úr 12,5% á fyrsta ársfjórðungi í fyrra. Arðgreiðslur og endurkaup hlutabréfa bankans á tímabilinu námu 26,8 milljörðum. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.
Í tilkynningunni kemur fram að lán til viðskiptavina hafi aukist um 4,3% frá áramótum, en það sé aðallega í formi lána til fyrirtækja sem hafi hækkað um 8% frá áramótum. Eigið fé bankans nam 173 milljörðum í lok mars, en það lækkaði vegna fyrrnefndrar arðgreiðslu upp á 22,5 milljarða og endurkaupa upp á 4,3 milljarða. Afkoma bankans kemur á móti til hækkunar á eigin fé.
Vaxtatekjur bankans á fyrsta ársfjórðungi námu 17,5 milljörðum og hækka um tæpa sex milljarða frá sama tíma í fyrra. Vaxtakostnaður var á móti 8 milljarðar og hækkaði úr 4,4 milljörðum. Vaxtatekjur umfram vaxtagjöld voru því 9,5 milljarðar á móti 7,3 milljörðum á fyrsta ársfjórðungi í fyrra.
Heildar rekstrartekjur bankans voru 14,5 milljarðar og hækkuðu úr 13,1 milljarði á sama tíma í fyrra, en rekstrargjöld hækkuðu um rúmlega 150 milljónir milli ára og voru 6,2 milljarðar.