Seðlabankastjóri telur óráðlegt að ráðast í miklar launahækkanir ofan í þá miklu verðbólgu sem nú þegar mælist hér á landi og segir að slíkar hækkanir muni ekki bæta lífskjör almennings heldur þvert á móti leiða til kjaraskerðingar. Hann segir bestu leiðina í boði þá að gera kjarasamninga til langs tíma þar sem horft er til þess að vernda kaupmáttinn.
„Það sem við þurfum að gera er að ná verðbólgunni niður. Allir verða að taka ábyrgð í því. Á meðan við erum að því verki getum við ekki séð sama vöxt kaupmáttar eins og við höfum séð hin síðustu ár. Með því er ég ekki endilega að segja að launafólk þurfi að taka á sig einhverjar byrðar, ég er bara að segja að þetta er eina skynsama leiðin til þess að tryggja lífskjör í landinu. Það er ekki hægt að láta læki renna upp í móti og að sama skapi er ekki hægt að auka kaupmátt í litlu opnu hagkerfi ef byrinn er andstæður á alþjóðamörkuðum“ segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Í dag kynnti hann hækkun á stýrivöxtum um eina prósentu. Slík hækkun hefur ekki sést hér á landi frá hruni. Verðbólga hér á landi mældist 7,2% í apríl og er stýrivaxtahækkunin viðbragð við henni.
„Að hækka laun að miklu marki ofan í þessa verðbólgu er í raun bara að skjóta sig í fótinn. Það er ekki að fara að bæta lífskjör almennings í landinu. Leiðin er sú að reyna að vernda kaupmáttinn; gera langtíma kjarasamning þar sem er horfst í augu við það að það sé ekki hægt að mæta erlendri verðbólgu með innlendum launahækkunum. Við búum í litlu opnu kerfi, við erum háð erlendum mörkuðum og lífskjör okkar ráðast af útflutningi og innflutningi. Þrátt fyrir allt erum við Íslendingar að koma betur út úr þeim miklu sviptingum sem hafa átt sér stað á erlendum mörkuðum í kjölfara Úkraínu stríðsins en flestar aðrar þjóðir,“ segir Ásgeir.
„Við verðum að sýna ákveðna auðmýkt gagnvart því að sem lítið opið hagkerfi ráðast lífskjör okkar fyrst og fremst á alþjóðamarkaði þegar til skamms og meðallangs tíma er litið og þeirri verðmætasköpun sem landið getur staðið undir.“
Er tilefni núna til algjörs launafrosts?
„Það er ekki mitt að ákveða það,“ segir Ásgeir og bætir við: „Það er alla vega ekki hægt að fylgja verðbólgunni eftir með launahækkunum.“
Hið opinbera hefur að undanförnu verið leiðandi í launahækkunum. Þarf fjármálaráðherra eða ríkisstjórnin að líta í eigin barm hvað það varðar?
„Það er mjög óheppilegt þegar opinberi geirinn er orðinn leiðandi í launahækkunum sem er í raun og veru ekki í samkeppnisumhverfi.“
Drífa Snædal, forseti Alþýðusambandsins, sagði í kjölfar kynningar Ásgeirs á hækkun stýrivaxta að nú beinist öll spjót að stjórnvöldum að bregðast við ástandinu, þ.e. hækkuðu matar- og olíuverði, verðbólgu og hærri vöxtum.
Hvað geta stjórnvöld gert?
„Þau eru ekki endilega í góðri stöðu. Það er mjög erfitt fyrir stjórnvöld að ætla að bæta launafólki upp fyrir alþjóðlegar verðhækkanir enda er nú þegar halli á fjárlögum og aukinheldur þurfti ríkissjóður að taka á sig mikinn kostnað vegna faraldursins. Nú þarf efnahagslega skynsemi fremur en kröfugerðir,“ segir Ásgeir sem telur þrátt fyrir allt að Ísland sé að koma betur út úr efnahagslegum áhrifum stríðsins í Úkraínu en margar aðrar þjóðir.
„Við getum ekki búist við því að við getum farið í gegnum þetta stríð og þessar miklu hækkanir á erlendu vöruverði án þess að það hafi nein áhrif á okkur eða okkar lífskjör. Það er ákveðin blinda á stöðuna. Við verðum að takast á við þessar hræringar á alþjóðamarkaði án þess að steypa okkur í skuldir líkt og við höfum þurft að gera allar götur frá því að við fengum efnahagslegt sjálfstæði, “ segir Ásgeir.
Stjórnvöld hljóta að þurfa að gera eitthvað til þess að bregðast við ástandinu samt sem áður?
„Já,“ segir Ásgeir og nefnir t.a.m. aðgerðir til þess að auka framboð á fasteignamarkaði, þ.e. stuðla að því að meira verði byggt. Þá bætir hann því við að stjórnvöld gætu þurft að horfa sérstaklega til þeirra sem verða fyrir mestum áhrifum af hækkandi matvælaverði ef sú ákvörðun verður tekin að koma með mótvægisaðgerðir við vaxandi verðbólgu.
„En það er ekki mitt að taka þá ákvörðun,“ segir Ásgeir.