Strætó bs. hefur verið dæmt til að greiða rútufyrirtækinu Teiti Jónassyni ehf. rúmlega 205 milljónir króna, auk vaxta, í skaðabætur vegna útboðs árið 2010, þar sem innkaupaskrifstofa hafnaði tilboði fyrirtækisins í akstur fyrir Strætó.
Forsaga málsins er sú að í febrúar 2010 birti Strætó útboðslýsingu vegna verksins en þar kom fram að það næði til aksturs almenningsvagna á 13 leiðum á höfuðborgarsvæðinu. Var sjö fyrirtækjum boðið að taka þátt í útboðinu í samræmi við undangengið forval og var Teitur Jónasson þar á meðal.
Strætó ákvað að taka tilboði Hagavagna hf. annars vegar og tilboði Kynnisferða ehf. hins vegar.
Síðar kom í ljós að vagnar Hagavagna hf. uppfylltu ekki körfur forvals- og útboðsgagna og afhenti Strætó því fyrirtækinu vagna svo það gæti staðið við skuldbindingar sínar.
Allrahanda. sem einnig tók þátt í útboðinu, krafði Strætó um 530 milljóna króna í skaðabætur, en héraðsdómur mat tjónið á 100 milljónir og staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu, árið 2017.
Teitur Jónasson hafði þá einnig höfðað mál á hendur Strætó og var komist að þeirri niðurstöðu að fyrirtækið hefði brotið gegn meginreglu við umrætt útboð. Var því viðurkenndur réttur Teits Jónassonar til skaðabóta úr hendi Strætó vegna missis hagnaðar sem hann hefði notið ef tilboði hans hefði ekki verið hafnað.
Dómur héraðsdóms nú snýr því að upphæð þeirra bóta.
Strætó krafðist sýknu fyrir héraðsdómi og þá einkum af tveimur ástæðum, annars vegar vegna þess að tilboð Teits Jónassonar hefði verið háð sams konar annmarka og tilboð Hagvagna hf., sem tekið var í útboðinu og leiddi til þeirrar niðurstöðu að Strætó var bótaskylt, og hins vegar að Teitur Jónasson hefði ekki orðið fyrir tjóni.
Héraðsdómi Reykjavíkur þótti ekki tækt að taka fyrri ástæðuna til umfjöllunar, og er í dómi dómstólsins vísað til þeirrar meginreglu að ekki sé hægt að efna til nýrra málaferla á grundvelli málsástæðu sem aðila hefði verið unnt að afla efnisúrlausnar um, í fyrra máli gegn gagnaðila.
„Sérstaklega spurður gat lögmaður [Strætó] ekki upplýst af hvaða ástæðu þessari málsástæðu hefði ekki verið hreyft í öndverðu fyrir héraði í málinu sem lauk með dómi Hæstaréttar í máli nr.485/2016,“ segir í niðurstöðukafla dómsins, sem kveðinn var upp á mánudag.
Varðandi þá málsástæðu Strætó, að ósannað væri að Teitur Jónasson hefði orðið fyrir skaðabótaskyldu tjóni vegna hagnaðarmissis, segir í dómnum að það stangist bæði á við niðurstöðu undirmats og yfirmats, en lagt var mat á tjón Teits Jónassonar í þeim báðum og því slegið föstu að það næmi umtalsverðum fjárhæðum.
Var sýknukröfu af þessum ástæðum hafnað, og Strætó eins og áður sagði dæmt til að greiða 205.484.573 krónur, með vöxtum, auk málskostnaðar upp á 5.100.000 krónur.