Horfurnar eru dökkar hvað varðar verðbólguþróun næstu mánuði, en verðbólgan mældist 7,2% í apríl og hefur ekki verið hærri í 12 ár. Allar líkur eru á að verðbólgan muni hækka enn frekar á næstu mánuðum eftir því sem fram kemur í greiningu Jakobsson Capital á hrávöru og verðbólgu. Snorri Jakobsson hagfræðingur er eigandi félagsins.
Þar kemur fram að í kjölfar stríðsins í Úkraínu hafi hrávöruverð hækkað. Það á ekki aðeins við um olíu- og kornverð sem hefur hækkað mikið, heldur einnig um verð á sólblómaolíu – sem mikið er notuð í matvælaframleiðslu. Um 60% allrar sólblómaframleiðslu í heiminum eru í Úkraínu og Rússlandi. Þetta mun að lokum leiða af sér frekari hækkun á matvöru hér á landi en hækkunin hefur ekki enn komið fram af fullum þunga að mati Jakobsson Capital.
Það getur tekið allt að þrjá mánuði fyrir hækkun hrávöruverðs að koma fram af fullum þunga hjá stórum matvælaframleiðendum. Þá kemur einnig fram að aðföng í byggingariðnaði hafa hækkað gríðarlega, líkt og verð á timbri, málmum og stáli, en nær allt steypustyrktarjárn á Íslandi kemur frá Hvíta-Rússlandi.
Til lengri tíma er útlitið þó bjart á Íslandi að mati greiningar Jakobsson Capital.