Fasteignafélagið Kaldalón hefur náð samkomulagi við félagið Búbót ehf., um kaup á tæplega 5.500 fermetra fasteign við Fossaleyni 19-23 auk 7.100 fermetra ónýtts byggingarréttar á sömu lóð.
Búbót er fasteignafélag í eigu Esjubergs, en Esjuberg er eignarhaldsfélag utan um heildverslunina Ó. Johnson & Kaaber, sem nýlega var sameinuð ÍSAM, Sælkeradreifingu, Kaffitári og fleiri félögum. Eigendur þess eru systkinin Helga Guðrún Johnson, Ólafur Ó. Johnson, Gunnlaugur Ó. Johnson og Friðþjófur Ó. Johnson.
Viðskiptin eru metin á samtals tæplega 1,8 milljarða, en það er dótturfélag Kaldalóns, Hvannir ehf., sem er kaupandinn. Greitt er fyrir kaupin með 1,28 milljarði í reiðufé og 500 milljónum í hlutafé í Kaldalóni, en miðað er við gengið 1,85 krónur á hlut. Verða því gefnir út 270.270.270 hlutir í félaginu vegna kaupanna.
Í tilkynningu til Kauphallarinnar er tekið fram að samhliða þessu hafi verið skrifað undir langtíma leigusamning á allri fasteigninni, en áætlað er að rekstrarhagnaður Kaldalóns muni aukast um 110 milljónir vegna viðskiptanna.