„Okkar kúnnafjöldi er alltaf að aukast og vöxturinn hefur verið stöðugur. Þetta er langhlaup en ekki spretthlaup,“ segir Þórgnýr Thoroddsen, einn eigenda Bjórlands.
Mikið hefur verið fjallað um tilkomu netverslana með áfengi síðustu misseri. Bjórland reið á vaðið fyrir tæpum tveimur árum og fyrir ári bættist Sante Wines við. Í kjölfarið kom Nýja vínbúðin og að undanförnu hefur fjölgað enn frekar í hópnum.
Tölur um áfengiskaup sem Meniga tók saman að beiðni Morgunblaðsins sýna að mikill meirihluti gerir þó enn sín áfengiskaup hjá ÁTVR. Raunar eru aðeins 2,5% áfengiskaupa hjá þremur stærstu netverslununum en ríflega 97% hjá Vínbúðunum. Síðastliðna 12 mánuði hafa 33.258 Meniga-notendur verslað við Vínbúðina, Sante Wines, Nýju Vínbúðina og Bjórland. Markaðshlutdeildina má sjá á meðfylgjandi grafi.
Þórgnýr segir að tölurnar séu athyglisverðar. Hann segir yfirburði ÁTVR ekki koma sér á óvart. „Vínbúðirnar eru með mjög góða dreifingu og flestir viðskiptavinir eru síður að leita sér að sérvöru eins og við og fleiri bjóðum.“
Hann segir jafnframt að Íslendingar séu heilt yfir ekki mjög duglegir að nota netsölu og heimsendingarþjónustu. „Fyrir flesta er það bara í leiðinni að koma við í Vínbúð og það speglast ábyggilega í þessum tölum.“
Eins og kom fram í Morgunblaðinu í vikunni hefur netverslunum með áfengi fjölgað að undanförnu. Sú nýjasta er Acan.is og þar áður bættist Desma.is við. Acan.is fylgir fordæmi Bjórlands og er með allt uppi á borðum. Verslunin er rekin á íslenskri kennitölu en ekki í gegnum erlent félag. Þórgnýr fagnar því. „Það er stórgott. Við gerðum það vísvitandi að hafa allt á Íslandi. Þá þarf ekki að fara í einhverja leiki. Það þarf bara að skýra lagaumhverfið og taka þetta á réttum vígvelli. Því fagna ég að fá sem flesta inn á þennan markað, það eykur pressuna á yfirvöld.“