Í tilefni af Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og sveitarstjórnarkosninganna hefur Nýja Vínbúðin afgreiðslu sína opna til klukkan 23:00 næstkomandi laugardag.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nýju Vínbúðinni en þar segir að lengri opnunartími sé til þess fallinn að bregðast við óskum og þörfum viðskiptavina um þjónustu.
„Viðbúið er að víða verði fagnað þar sem Systur komust áfram í aðalkeppni söngvakeppninnar og kunna einhverjir að þurfa að bregðast við gangi hratt á birgðir í upphafi kosningavöku, eða útlit sé fyrir að fagna verði rækilega,“ segir í tilkynningunni.
Sverrir Einar Eiríksson, eigandi og framkvæmdastjóri Nýju Vínbúðarinnar, segist einnig hafna ávirðingum forstjóra ÁTVR í ársskýrslu um að ekki sé gætt að því að afhenda ekki öðrum áfengi en fullan aldur hafa til þeirra kaupa.
„Við fylgjum lögum og reglum og viljum standa vel að okkar þjónustu,“ segir Sverrir Einar.