Gert ráð fyrir að sameiningu íslenska lyftæknilyfjafyrirtækisins Alvotech og sérhæfða yfirtökufélagsins Oaktree Acquisition Corp II. (OACB) verði lokið um miðjan júní samkvæmt fréttatilkynningu frá Alvotech.
Skráning Alvotech á hlutabréfamarkað í Bandaríkjunum og á Íslandi er því í sjónmáli. Auðkenni fyrirtækisins á markaði verður ALVO.
Boðað hefur verið til hluthafafundar í OACB hinn 7. júní þar sem leitað verður endanlegs samþykkis fyrir samrunanum.
Um fyrirtækin segir í tilkynningunni:
„Alvotech, stofnað af Róberti Wessman, stjórnarformanni fyrirtækisins, er líftæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í þróun og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja fyrir sjúklinga um allan heim. Alvotech var stofnað árið 2013 og hefur það að markmiði að verða leiðandi í framleiðslu og dreifingu líftæknihliðstæðulyfja. Allir þættir í framleiðslunni eru í höndum fyrirtækisins sjálfs til að tryggja hámarksgæði. Höfuðstöðvar og hátæknisetur Alvotech, sem staðsett er í Vísindagörðum Háskóla Íslands í Vatnsmýri, eru búin fullkomnustu tækjum og búnaði til þróunar og framleiðslu líftæknilyfja.
Oaktree Acquisition Corp. var stofnað til að vinna með framsæknum nýsköpunarfyrirtækjum í hröðum vexti og auðvelda þeim inngöngu á hlutabréfamarkað. Með því að nýta þekkingu og reynslu Oaktree, sem var með 164 milljarða Bandaríkjadala í stýringu í lok fyrsta ársfjórðungs 2022, getur Oaktree Acquisition Corp. veitt úrvals ráðgjöf og stuðning til þeirra fyrirtækja sem það vinnur með, byggt á markmiði um langtímasamstarf og verðmætasköpun.“