„Skuldsetning heimilanna mun stórlega aukast vegna hækkunar stýrivaxta og vegna verðbólgu,“ segir Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins og annar varaformaður fjárlaganefndar í samtali við mbl.is.
Eyjólfur segir stjórnvöld ekki gera nægilega mikið til að sporna við vaxandi verðbólgu og segir meðal annars að ekki sé farið eftir lögum um almannatryggingar. Það hafi ekki verið gert árum saman.
„Það hefur ekki verið farið að 69. grein laga um almannatryggingar undanfarin ár. Það verður að stöðva þá kjaragliðnun sem átt hefur sér stað og er fyrirsjáanlegt að verði ennþá meiri núna vegna verðbólgu. Það eru erfiðir tímar framundan fyrir þennan hóp og aðgerðarleysi stjórnvalda er sláandi.“
Eyjólfur segir greinina ekki hafa verið tekna alvarlega undanfarin ár en hún hljóðar svona:
„Bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr., skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.“
Hann segir tekjulægstu hópa landsins hafa verið skildir eftir í almennri launaþróun og sé því kjaragliðnun upp á tugi prósenta. Aukin verðbólga muni bitna mest á þessum hópum öryrkja og aldaðra
Eyjólfur segir að taka eigi á „heimatilbúnu verðbólgunni“ með því að taka húsnæðisverð út úr vísitölu neysluverðs. Hann segir að þörf sé á aðgerðum stjórnvalda til að auka framboð á húsnæði.
„Verðbólgan mælist 7,2 prósent og hefur ekki verið hærri frá hruninu. Drifkrafturinn er hækkun húsnæðisverðs, það verður að taka á þessu máli. Ísland er stórt land og það á ekki að vera skortur á húsnæði á Íslandi.“
„Nú er fyrirsjáanleg hækkun húsnæðislána og aðrar verðhækkanir og stjórnvöld verða að fara tafarlaust í alvöru aðgerðir til að hjálpa sérstaklega öldruðum og öryrkjum sem eru tekjulægstu hóparnir. Það er ekki hægt að bíða,“ segir Eyjólfur Ármannsson.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður fjárlaganefndar og þingmaður Vinstri grænna, segir augljóst að það þurfi að skoða það hvort breyta þurfi forsendum sem fjármálaáætlun byggir á, vegna vaxandi verðbólgu og hækkun stýrivaxta.
„Ég held við getum ekki horft fram hjá því að þetta hefur auðvitað afleiðingar á komandi ár og næsta ár. Við erum með allt aðrar forsendur fyrir næsta ár heldur en kannski er að raungerast,“ segir Bjarkey í samtali við mbl.is
Fjárlaganefnd hefur ekkert komið saman síðan Seðlabankinn tilkynnti hækkunina en nefndin fundar næst á mánudaginn.