Heilbrigðistæknifyrirtækið Neckcare hefur lokið við rúmlega eins milljarðs króna fjármögnun. Ætlunin er að fara í sölu- og markaðsstarf í Bandaríkjunum á nýrri einkaleyfisvarðri lausn til greiningar og endurhæfingar á hálsskaða. Einnig verður fjármagnið notað til að styðja við frekari vöruþróun hjá félaginu.
Í tilkynningu frá Neckcare kemur fram að framtakssjóðurinn Iðunn, sem Kvika eignastýring rekur, leiði fjárfestinguna. Þá taki einnig þátt núverandi hluthafar og nýir fjárfestar.
Félagið hefur á undanförnum árum unnið að rannsóknum, einkaleyfisvernd og þróun hugbúnaðar til hlutlægrar greiningar og meðferðar á hálsskaða. Félagið opnaði nýlega skrifstofu í Bandaríkjunum, sem markar upphafið að markaðssetningu þess vestanhafs.
Heilbrigðislausnir Neckcare byggjast á áralöngum vísindarannsóknum Dr. Eyþórs Kristjánssonar, sjúkraþjálfara, sem þróaði og sannprófaði nýtt klínískt matspróf á hreyfistjórn hálsins.
Í tilkynningunni er haft eftir Þorsteini Geirssyni, framkvæmdastjóra félagsins, að vörur Neckcare mæli ástand sjúklings með skerta hreyfigetu í hálsi og að árangur í endurhæfingu náist fyrr með mælanlegri meðferð.
Neckcare var stofnað árið 2019 af Eyþóri og Þorsteini. Hjá fyrirtækinu starfa í dag 12 manns á Íslandi og í Bandaríkjunum.