Heimilistæki ehf. hafa, samkvæmt staðfestum heimildum Morgunblaðsins, fest kaup á heildversluninni Ásbirni Ólafssyni ehf. Samkvæmt heimildum blaðsins er kaupverðið hátt í tveir milljarðar króna og eru kaupin gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.
Eigendur heildverslunarinnar höfðu áður selt hluta af starfsemi hennar en Danól, dótturfélag Ölgerðarinnar, fékk í fyrra leyfi Samkeppniseftirlitsins til að taka yfir hluta viðskiptasambanda, birgða og tækja á sviðum matvöru-, stóreldhúsa- og hreinlætisvara.
Rekstur Ásbjörns Ólafssonar ehf. hefur gengið sæmilega og tekjur aukist lítillega, þótt afkoma félagsins hafi dvínað á liðnum árum. Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2020 nam hagnaður félagsins um 26,6 milljónum króna og eigið fé í árslok 2020 var tæpar 250 milljónir króna.
85 ára fjölskyldusaga á enda
Ásbjörn Ólafsson ehf. hefur verið í eigu sömu fjölskyldu frá stofnun fyrirtækisins, eða í 85 ár. Félagið er í eigu fimm barna Ólafíu Ásbjörnsdóttur, sem var dóttir Ásbjörns Ólafssonar stofnanda. Af þeim systkinum er Guðmundur K. Björnsson nú framkvæmdastjóri og Ásta Friðrika Björnsdóttir sölustjóri sérvöru. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins munu þau að óbreyttu starfa áfram hjá félaginu. Hin systkinin eru Ólafur Björn, Gunnlaugur Rafn og Ásbjörn.
Eigendur Heimilistækja eiga jafnframt Sjónvarpsmiðstöðina ehf., sem í dag er rekin undir merkjum Raflands.