Logi Sigurðarson
Áhrif stríðsins í Úkraínu má finna á Íslandi, sem og um heim allan. Hér á landi má vel merkja verðhækkanir á byggingarefnum sem gætu leitt af sér enn frekari verðhækkanir á fasteignamarkaði, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir það mikið áhyggjuefni að verð á byggingarefnum hafi snarhækkað upp á síðkastið í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Nefnir hann sem dæmi verð á stáli sem hefur fjórfaldast á skömmum tíma. Önnur aðföng, líkt og sement og kopar, hafa einnig hækkað mikið, og hafa þessar hækkanir haft mikil áhrif á byggingarkostnað.
„Við erum að sjá það að verkkaupar eru farnir að setja inn fyrirvara í útboðum um heimild til endurskoðunar ef aðstæður breytast mikið, en þetta á ekki við núgildandi samninga,“ segir Sigurður.
Núgildandi verksamningar eru flestir tengdir við byggingarvísitöluna sem að sögn Sigurðar endurspeglar ekki þessar hækkanir sem verktakar eru að verða vitni að.
„Þetta hefur valdið því að það er meiri kostnaður sem lendir á verktökum og verkkaupar þurfa þá aðeins að horfa til þessara óvenjulegu aðstæðna sem nú ríkja til þess að hægt sé að klára verk,“ segir Sigurður og bætir við: „Hættan er sú, ef ekki verður tekið á þessu, að þá verði meiri óvissa í uppbyggingunni sem er fram undan með tilheyrandi álagi.“