Mikil aukning varð á útflutningsverðmæti íslenska þjóðarbúsins á fyrsta ársfjórðungi, borið saman við sama fjórðung í fyrra. Útflutningsverðmæti allra stoðanna þriggja jókst; ferðaþjónustu, sjávarútvegs og stóriðju.
Þetta skýrist af mikilli fjölgun ferðamanna, miklum loðnuveiðum og stórhækkuðu álverði frá því í fyrra.
Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans.
Fram kemur að útflutningsverðmæti stoðanna þriggja á fjórðungnum hafi numið 242,3 milljörðum króna og hefur það ekki mælst hærra. Það skýrist einungis af miklu útflutningsverðmæti bæði stóriðju og sjávarafurða en hvort tveggja hefur ekki áður mælst hærra.
Mikið útflutningsverðmæti sjávarafurða skýrist meðal annars af miklum loðnuveiðum en mikið útflutningsverðmæti stóriðju skýrist fyrst og fremst af sögulega mjög háu álverði. Það var að meðaltali tæplega 3.300 bandaríkjadollarar á tonnið á fyrsta fjórðungi þessa árs, borið saman við tæplega 2.100 dollara á tonnið á sama tímabili í fyrra.
Mbl.is hefur greint velgengni íslensku álveranna sem og loðnuútgerðanna.