Hagfræðideild Landsbankans spáir því að verðbólgan muni ná hámarki í ágúst og geti þá farið í 8,5%.
„Þetta er há verðbólga en þetta eru sambærilegar verðbólgutölur og við sjáum erlendis,“ segir Gústaf Steingrímsson, hagfræðingur hjá hagfræðideild Landsbankans, í samtali við mbl.is.
„Við gerum ráð fyrir því að verðbólgan muni vaxa aðeins áður en hún tekur að hjaðna á ný. Þannig gerum við ráð fyrir að verðbólga muni aukast aðeins á næstu mánuðum og toppa í 8,5% í ágúst en upp frá því taki verðbólgan að hjaðna.“
Í ljósi þess hvernig verðbólgan hefur þróast á árinu komu tölur dagsins ekki á óvart. „Þetta var nokkuð nálægt því sem við höfðum gert ráð fyrir. Matur og drykkur hækkaði aðeins minna en við áttum von á en verðhækkanir í þessum lið hafa verið meiri en við bjuggumst við á síðustu mánuði. Verð á mat og drykk hefur hækkað hratt erlendis en það sem hefur vegið þar á móti hefur verið styrking krónunnar. Engu að síður kann þessi mæling nú að vera vísbending um að mestu verðhækkanirnar í mat og drykk kunni að vera að baki.“
Gústaf segir að það sé tímaspursmál hvenær draga fari úr þessum miklu hækkunum á fasteignamarkaði. „Við teljum að á næstu mánuðum muni draga úr hækkunum á fasteignamarkaði og að þær verði mun nær því sem gerist í eðlilegu árferði.“
Helstu óvissuþættirnir eru fasteignaverðið hér heima, gengi krónunnar og hækkanir á innfluttum vörum. Áframhaldandi óvissa vegna stríðsins í Úkraínu mun halda hrávöruverði og þar með verðbólguþróun í óvissu. Verðbólguvæntingar erlendis hafa líka verið að aukast og spurning hvort að þær kunni, í gegnum hærri launakröfur, að leiða til enn frekari verðbólgu. Það kemur varla í ljós að ráði fyrr en á næsta ári,“ segir Gústaf í samtali við mbl.is.