Rúm tuttugu þúsund nýttu frádráttarúrræði

Fjöldi skattframteljanda er 317.567 í ár og fjölgar um 5.056 á milli ára. Skattskyldar tekjur framteljenda nema 2.005 milljörðum króna og skila samtals 284 milljörðum króna í tekju- og fjármagnstekjuskatt til ríkissjóðs og og 275 milljarða króna í útsvar til sveitarfélaga. 

Um 234 þúsund einstaklingar fá álagðan tekjuskatt og fækkar þeim um tæplega 1.600 á milli ára. Þá fá 306 þúsund einstaklingar álagt útsvar og framteljendur sem hafa engar tekjur og falla undir tekjuskatts- og útsvarsstofn eru tæplega tólf þúsund. 

Tekjuskatts- og útsvarsstofn landsmanna árið 2022 vegna tekna ársins 2021 nemur 1.824 milljörðum króna og hækkar um 7,2% frá fyrra ári. Stofninn telur öll laun og ígildi launa, hlunnindi, lífeyri frá Tryggingastofnun og lífeyrissjóðum, atvinnuleysisbætur, styrki og hvers kyns aðrar greiðslur að teknu tilliti til frádráttar. 

Fram kemur í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu að af einstökum tekjuliðum hafi laun og hlunnindi hækkað um 9,3% greiðslur úr lífeyrissjóðum og greiðslur frá Tryggingastofnun hækkuðu um 5,3%. Aðrar skattskyldar tekjur og styrkir hækkuðu um 6,2%. Á móti drógust atvinnuleysisbætur saman um 26% og námu 48 milljörðum króna. 

Heildarfrádráttur frá tekjuskatts- og útsvarsstofninum var 118 milljarðar króna og eykst hann um 10% milli ára. Í fyrsta sinn var heimilt að draga frá tekjuskatts- og útsvarsstofni gjafir og framlög til skráðra almannaheillafélaga. Samtals nýttu 20.473 einstaklingar þetta úrræði og drógu 416 milljónir króna frá tekjuskatts- og útsvarsstofni sínum. Þá er frádráttur vegna kaupa á hlutabréfum samtals 348 milljónir sem er 227 milljón króna hækkun frá fyrra ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK