Skattar verði lækkaðir í takt við fasteignamat

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu munu mörg bregðast við hækkun fasteignamats með lækkun álagningarprósentu fasteignaskatts. Ekki hafa fengist svör frá flokkunum sem nú ræða meirihlutasamstarf í Reykjavík um það hvort sú leið verði farin á þeim bænum. 

Heild­armat fast­eigna á Íslandi hækk­ar að meðaltali um 19,9% frá yf­ir­stand­andi ári og verður 12.627 millj­arðar króna, sam­kvæmt nýju fast­eigna­mati Þjóðskrár Íslands fyr­ir árið 2023. Er þetta mesta hækkun fasteignamats frá hruni.

„Rosalega hátt stökk í Árborg“

Af einstökum sveitarfélögum hækkar heildarfasteignamat mest í Hveragerðisbæ eða um 32,3%. Í Árborg nemur hækkunin 32,1%. Ekki náðist í oddvita Okkar Hveragerðis og Framsóknar, sem nú standa í meirihlutaviðræðum, við vinnslu fréttarinnar. 

Bragi Bjarnason, oddviti hreins meirihluta Sjálfstæðisflokksins í Árborg, segir að sveitastjórnin þar muni leita leiða til að koma til móts við íbúa í ljósi þessa. 

„Þetta kemur held ég öllum á óvart, hvað hækkunin er verulega mikil,“ segir Bragi í samtali við mbl.is. 

„Þetta er rosalega hátt stökk í Árborg. Ný bæjarstjórn mun klárlega horfa til þess hvernig við getum komið til móts við íbúana. Okkar stefnuskrá var að skapa forsendur til þess að lækka álögur á íbúa og fyrirtæki og við munum skoða allt sem við getum til að koma til móts við þetta,“ segir Bragi. 

Bragi Bjarnason.
Bragi Bjarnason. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Lækka skatta í Ölfusi

Í sveitarfélaginu Ölfusi hækkaði fasteignamat á sérbýli um 36% og fasteignamat á fjölbýli hækkaði um rúmlega 30%. 

Elliði Vignisson sveitarstjóri í Ölfusi segir að áfram verði unnið að því að lækka skatta á íbúa í ljósi þessa. 

„Við erum búin að gera þetta fjögur ár í röð. Ný gjöld verða ekki lögð á fyrr en eftir tæpt ár, en það hefur verið lenskan hér í Ölfusi síðustu ár að þegar fasteignagjöld hækka höfum við lækkað útsvarsprósentu á móti. Miðað við umræðuna geri ég ráð fyrir að það verði gert áfram,“ segir Elliði. 

Elliði Vignisson.
Elliði Vignisson. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

 „Við höfum verið að lækka álagningarprósentuna í fasteignagjöldunum á móti. Fasteignagjöldin eru svolítið ósanngjarn skattur sem þarf að endurskoða og við höfum verið að reyna að stemma stigu við að skattur á heimili fólks sé ráðandi í tekjustreyminu. Okkar stefna hefur verið að lækka fasteignagjöldin eftir því sem matið hefur hækkað,“ segir Elliði. 

Koma til móts við frekari hækkanir 

Ásdís Kristjánsdóttir, nýr bæjarstjóri Kópavogs, segir að í sáttmála nýs meirihluta Kópavogs sé tiltekið að fasteignaskattar lækki til móts við frekari hækkun fasteignaverðs. Þannig sé komið til móts við hækkun fasteignamats. 

Ásdís Kristjánsdóttir.
Ásdís Kristjánsdóttir. mbl.is/Hallur Már

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar tekur í svipaðan streng:

Munuð þið lækka álagningarprósentuna fasteignagjalda í ljósi þessarar hækkunar?

„Við munum gera það eins og við höfum gert síðustu ár til að koma til móts við fasteignaeigendur. Það er líka kveðið á um það í málefnasamningum okkar að halda álögum og gjöldum í lágmarki og reyna að lækka þau. Við munum gera það áfram – það verður væntanlega tekið tillit til verðbólgu en við munum koma til móts við þessa hækkun á fasteignamati,“ segir Rósa. 

Rósa Guðbjartsdóttir.
Rósa Guðbjartsdóttir. Ljósmynd/Hafnafjarðarbær

Almar Guðmundsson, oddviti hreins meirihluta Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ, segir það áfram stefnu flokksins í bæjarstjórn að lækka álögur á íbúa:

„Við höfum undanfarin ár lækkað álagningarhlutfallið á móti þessari hækkun á stofninum og við ætlum að gera það áfram – það var alveg skýrt í stefnu okkar fyrir kosningar. Nú leggjum við þetta bara fyrir umræðu um fjárhagsáætlun fyrir 2023 að lækka hlutfallið þannig að sú hækkun sem verður á fasteignamati skili sér ekki í álagningunni til íbúa,“ segir Almar og bætir við: „Ásetningur okkar er að þetta hafi ekki áhrif á bæjarbúa.“

Almar Guðmundsson.
Almar Guðmundsson.

Engin svör frá meirihlutanum 

Ekki náðist í Dag B. Eggertsson borgarstjóra vegna þessa né heldur Dóru Björt Guðjónsdóttur oddvita Pírata og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir oddviti Viðreisnar var ekki laus til viðtals. Þá náðist ekki í Einar Þorsteinsson, oddvita Framsóknar í borginni, við vinnslu fréttarinnar. 

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, er þeirrar skoðunar að lækka eigi álagningarhlutfall á fasteignaskatta:

„Þetta var eitt af stóru kosningamálum okkar í baráttunni í borginni nú í vor – að lækka fasteignagjöldin. Það var náttúrulega fyrirséð að fasteignamat myndi hækka mikið og þessi hækkun sem var kynnt í dag er meira að segja langt umfram spár. Eina skynsamlega viðbragðið við svona hækkun er að lækka álagningarprósentuna til samræmis. Það kostar ekki meira að þjónusta fasteignaeigendur þó að matið hækki. Við höfum talað fyrir því hingað til og munum halda því áfram,“ segir Hildur. 

Hildur Björnsdóttir.
Hildur Björnsdóttir. mbl.is/Ágúst Ólíver
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK