Um miðja síðustu viku var tilkynnt að Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festar hf., hefði sagt starfi sínu lausu frá 1. ágúst nk. og að gert hefði verið samkomulag um starfslok hans. Þeim sem þekkja til mála innan Festar varð þó fljótt ljóst að uppsögnin var ekki komin til að frumkvæði Eggerts Þórs, sem hefur starfað hjá félaginu og forvera þess í ellefu ár.
Guðjón Reynisson, stjórnarformaður Festar, vildi í samtali við ViðskiptaMogga ekki tjá sig um málið umfram það sem fram kemur í fyrrnefndri tilkynningu, enda bundinn trúnaði um málefni félagsins sem er skráð á markað. Hann segir að Eggert Þór og stjórn félagsins skilji í sátt og að Eggert Þór muni skila af sér hálfs árs uppgjöri síðar í sumar. Aðspurður segir Guðjón að staða forstjóra verði auglýst.
Samkvæmt heimildum ViðskiptaMogga gætir nokkurs pirrings í hópi hluthafa yfir brottrekstri Eggerts Þórs, bæði meðal forsvarsmanna lífeyrissjóða og meðal minni hluthafa úr hópi einkafjárfesta. Pirringurinn snýr aðallega að því að stjórnin hafði ekkert samráð við stærstu hluthafa félagsins og ekkert hafi heyrst frá stjórninni eftir að tilkynningin fór út. ViðskiptaMogginn hefur heimildir fyrir því að LSR, Birta, Gildi og Lífeyrissjóður verslunarmanna, þ.e. fjórir af fimm stærstu eigendum félagsins, hafi litlar upplýsingar fengið um málavexti, ástæður brottrekstrarins og næstu skref.
Meðal stærri einkafjárfesta í Festi eru Stormtré ehf., sem er að mestu í eigu Hreggviðs Jónssonar, Brekka Retail sem er í eigu Þórðar Más Jóhannessonar (sem áður var stjórnarformaður Festar), Kjálkanes, systurfélag Gjögurs á Grenivík, og Sjávarsýn, félag í eigu Bjarna Ármannssonar. Þá eiga aðrir fjárfestar hluti í gegnum eignastýringar sínar í bönkunum.
Aðspurður hvort Hreggviður og Þórður Már hafi haft einhver afskipti af félaginu eða stjórn þess segir Guðjón svo ekki vera.