Marel hefur gengið frá kaupum á Wenger fyrir 540 milljónir bandaríkjadala, sem samsvarar 71 milljarði íslenskra króna.
Wenger er fyrirtæki í lausnum og þjónustu fyrir framleiðendur á matvælum fyrir gæludýr, fóðri fyrir fiskeldi og markaðsaðila sem eru að hasla sér völl á ört vaxandi neytendavörumarkaði með afurðir úr plöntupróteinum, að því er segir í tilkynningu frá Marel.
Kaupin voru gerð með hefðbundnum fyrirvörum, þar með talið með fyrirvara um samþykki samkeppnisyfirvalda og hluthafa Wenger. Hafa þeir verið uppfylltir án athugasemda og var því gengið frá kaupunum í dag.
Kaupin á Wenger eru mikilvægt skref inn á nýja og spennandi vaxtarmarkaði þar sem hátæknilausnir Wenger á sviði þrýstimótunar (e. extrusion) og þurrkunar (e. dryer technology) mynda kjarnann í nýju tekjusviði Marel, að því er fram kemur í tilkynningu en auk þess deilir Wenger metnaði Marel fyrir nýsköpun og vöruþróun á hátæknilausnum.